Tveir þingmenn gerðu fyrirhugað verkfall félags flugvallarstarfsmanna ríkisins að ræðuefni sínu í umræðum um störf Alþingis í dag. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, taldi fréttaflutning af aðgerðum gegn yfirvofandi verkfalli, þegar verkfall er ekki einu sinni hafið, vera undarlegan.
„Það er rætt um aðgerðir gegn verkfallinu, þótt verkfallið sé ekki einu sinni hafið, og fjallað um þær eins og þær séu sjálfsagður hlutur sem Alþingi getur gripið til einu sinni í mánuði eða svo.“
„Þetta brýtur gegn þeim mannréttindi sem verkfallsrétturinn er. Ætla þeir þá næst að setja lögin á flugmenn og flugfreyjur?“ Hvatti hann Alþingi í að fara varlega í það að setja lög á verkföll og benti á að á árunum 1995-2014 hafi slík lög verið sett fimm sinnum.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hvatti samningsaðila til að semja áður en til verkfalls komi.
„Annað gæti kostað okkur milljarð í tekjur á dag og skaðað ímynd landsins. Ferðaþjónustan má ekki við því að fá slíkt bakslag.“
Benti hann á að Suðurnesin séu láglaunasvæði þar sem ríki mikið atvinnuleysi. „Það eru borguð lág laun á Keflavíkurflugvelli. Þar er stórt opinbert hlutafélag sem skilar milljarði í hagnað sem rekur flugvöllinn og það er spurning hvort ekki sé kominn tími til þess að starfsmenn fái hluta af þeim hagnaði,“ sagði Ásmundur.