Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir áframhaldandi spennu í Úkraínu og átök í austurhluta landsins vera alvarlegt áhyggjuefni fyrir íbúa landsins og áleitnar spurningar vakni um öryggishorfur í Evrópu. Staða mála í Úkraínu og samskiptin við Rússland voru meðal umræðuefna á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem lauk í Reykholti í dag.
Gunnar Bragi segir þungt hljóð í ráðherrum Norðurlandanna vegna stöðu mála. Rússnesk stjórnvöld hafi ekki beitt sér fyrir því að Genfarsamkomulagið frá 17. apríl síðastliðnum sem draga átti úr spennu, nái fram að ganga. Svo langt sé nú gengið að eftirlitsmenn aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sitji sem gíslar aðskilnaðarsinna sem treysti á stuðning Rússlands.
„Gíslataka eftirlitsmanna á vegum ÖSE er óásættanlegt framferði og það er skýlaus krafa að þeir verði leystir úr haldi þegar í stað. Rússneskum stjórnvöldum ber að beita áhrifum sínum til að lægja öldurnar í landinu í samræmi við Genfarsamkomulagið og að tryggja að ÖSE geti starfað með eðlilegum hætti í landinu en það hefur enn ekki gengið eftir,“ er haft eftir Gunnari Braga í fréttatilkynningu.
Á fundinum undirstrikaði Gunnar Bragi stuðning Íslands við eftirlitsverkefni ÖSE en Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra fer fyrir einni af tíu eftirlitssveitum stofnunarinnar í landinu. Þá segir Gunnar Bragi að aðgerðir Atlantshafsbandalagsins til að styrkja varnir þess í Eystrasaltsríkjunum og í austurhluta Evrópu séu nauðsynlegar við núverandi aðstæður. Þá ítrekar hann fordæmingu íslenskra stjórnvalda á innlimun Rússlands á Krímskaga sem brjóti í bága við alþjóðalög og alþjóðaskuldbindingar Rússlands.
Á fundinum var rætt um málefni Mið-Austurlanda, þ. á m. borgarastríðið í Sýrlandi, erfiða stöðu friðarumleitana milli Palestínu og Ísraels og alvarlega þróun mála í Egyptalandi.
Ráðherrarnir fjölluðu um samstarf landanna á sviði öryggis- og varnarmála. Mikil ánægja er með norrænu varnaræfinguna Iceland Air Meet sem haldin var hér á landi í febrúar síðastliðnum og mikill vilji að byggja á þeirri reynslu með fleiri æfingum af sama toga í framtíðinni. Þá ræddu ráðherrarnir málefni norðurslóða og samstarf utanríkisþjónusta landanna í húsnæðis- og rekstrarmálum.