„Ég reyndi allt undanfarna daga til þess að halda draumnum á lífi en án árangurs,“ segir Ingólfur Axelsson á Facebook-síðu sinni í dag en hann ætlaði að klífa Everest. Þær áætlanir fóru í uppnám eftir snjóflóðið í fjallinu fyrr í þessum mánuði með þeim afleiðingum að sextán manns létu lífið. Í kjölfarið hófst kjaradeila leiðsögumanna við stjórnvöld í Nepal sem ekki sér fyrir endann á.
Ingólfur sagði í samtali við mbl.is síðastliðinn laugardag að hann ætlaði að sjá til eftir helgina þegar hann kæmi til Kathmandu, höfuðborgar Nepal, og taka endanlega ákvörðun um framhaldið þá. Það væri í það minnsta ekki möguleiki á að fara upp suðurhlið fjallsins en norðurhliðin er hluti Kína. Nú er hins vegar greinilega endanlega útséð um að Ingólfur haldi á tind Everest í þetta skiptið. Á Facebook-síðu sinni þakkar hann öllum þeim sem sýnt hafa honum stuðning. Hann hafi fengið skilaboð frá mörgum.
„Everest er núna búið spil,“ segir Ingólfur. Eftir undirbúning undanfarið ár. „Vonbrigðin vegna Everest eru hins vegar tímabundin ólíkt þeim missi fjölskyldna fórnarlambanna í mesta harmleik í sögu fjallsins.“ Hann verður áfram í Nepal í nokkra daga enn segir hann á meðan hann bíður eftir farangri sínum frá grunnbúðunum. „Markmiðið er að standa á tindi fjallsins eftir 381 dag.“
Frétt mbl.is: Suðurhliðin ekki möguleiki
Frétt mbl.is: Ingólfur: „Game over“
Frétt mbl.is: Vonbrigði og sorg í grunnbúðunum