Guðni segir menn læra af reynslunni

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég fagna þeirri samstöðu sem loksins náðist, bæði um baráttuaðferðir og um það að fá heimild til að útvíkka framboðið, til flugvallarsinnanna, sem nú heita að vísu flugvallarvinir,“ sagði Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Hann sat fund stjórnar kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Reykjavík í fyrrakvöld, þar sem framboðslisti flokksins var kynntur undir nafninu „Framsókn og flugvallarvinir“. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, héraðsdómslögmaður, formaður Landssambands framsóknarkvenna og varaþingmaður flokksins, skipar fyrsta sæti listans, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær og þrjár konur skipa næstu þrjú sætin á listanum.

Sveinbjörg Birna sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær vera mjög ánægð með niðurstöðu fundarins í fyrrakvöld. Hún hefði komið til landsins aðfaranótt sl. laugardags og á sunnudagskvöldið hefði henni verið veitt umboð til þess að leiða listann. „Ég frétti fyrst af tillögu Guðna Ágústssonar á laugardaginn, í fjölmiðlum og leist strax mjög vel á hugmynd hans um flugvallarsinna, sem ég kýs að kalla flugvallarvini. Ég held að mér sé óhætt að segja að mér hafi tekist að sannfæra stjórn kjördæmissambands Framsóknarflokksins um að við ættum að fara að tillögu Guðna, opna framboðið og bjóða til liðs við framboðið hér í Reykjavík flugvallarvinum,“ sagði Sveinbjörg Birna.

Hef aldrei gagnrýnt konur

Guðni leggur áherslu á að það sé eitt stærsta hagsmunamál landsins, að Reykjavíkurflugvöllur fái áfram að vera í Vatnsmýrinni. Aðspurður hver hafi verið ástæðan fyrir því að stjórn kjördæmissambandsins hafi snúist hugur og ákveðið að ekki yrði um „hreint Framsóknarframboð“ að ræða, heldur framboð „Framsóknar og flugvallarvina“ sagði Guðni: „Menn læra af reynslunni. Vitrir menn hafa auðvitað knúið fram þessa niðurstöðu með því að segja að það væri mjög heppilegt fyrir flokkinn að opna sitt framboð, eins og Framsóknarflokkurinn gerir víða um land, og fá fleiri hagsmunaaðila og baráttufólk til liðs við sig.“

Guðni er ánægður með þá áherslu sem framboðið ætlar að leggja á áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, sem sé eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar. Guðni var spurður hvort hann teldi heppilegt fyrir framboðið að fjórar konur skipuðu efstu fjögur sæti framboðslistans í Reykjavík. „Ég hef aldrei gagnrýnt konur og stend með þeim,“ svaraði Guðni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert