Samstaðan kjarni baráttunnar

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/Ómar

„Með samtakamættinum getum við varið það kerfi sem á síðustu áratugum hefur verið reist og með samtakamættinum getum við byggt okkur enn betra samfélag, réttlátara samfélag landsmönnum öllum til hagsbóta. Réttlátt samfélag jafnaðar er eina tryggingin fyrir velsæld þjóðarinnar.“

Með þessum orðum lauk ræðu Elínar Bjargar Jónsdóttur, formanns BSRB, á hátíðarhöldum í tilefni af frídegi verkamanna á Ingólfstorgi í Reykjavík í dag. Hún sagði hollt að rifja það upp að það sem áunnist hefði til þessa í verkalýðsbaráttunni hefði ekki komið af sjálfu sér heldur hefði sú barátta kostað umtalsverðar fórnir og baráttu sem hefði verið knúin áfram af samstöðu sem yrði að virkja áfram enda stöðugt sótt að kjörum og réttindum verkafólks.

„Launafólk hefur horft upp á mikla kjararýrnun síðustu ár, hærri kostnað vegna heilbrigðisþjónustu, niðurskurð á almannaþjónustu og uppsagnir starfsfólks. Það er mikill skortur á leiguhúsnæði og leiguverð er hærra en margir ráða við. Börnum sem lifa undir fátæktarmörkum fer fjölgandi og slíkt ástand á ekki að líðast í landi sem kennir sig við mannréttindi, jafnrétti, velferð og jöfnuð. Við verðum að bregðast við.“

Tekist hefði að byggja upp samfélag jöfnuðar en við núverandi aðstæður væri þróunin frá þeirri samfélagsgerð og í átt til aukinnar misskiptingar. Auka þyrfti kaupmáttinn, skapa þyrfti fleiri störf, tryggja fólki húsnæði á viðráðanlegu verði og efla velferðarþjónustuna, heilbrigðiskerfið og menntastofnanirnar. Framtíðarstefnu vantaði hjá stjórnvöldum. Meðal annars í peninga- og efnahagsmálum og varðandi atvinnuuppbyggingu.

„Við höfum séð að stjórnvöld hafna tekjum frá þeim sem helst eru aflögufærir. Skattar hafa verið lækkaðir á þá best settu og von er á skuldaniðurfellingum sem koma á engan hátt til móts við þá sem mest þurfa á að halda. Og enn eru boðaðar skattalækkanir. Þess vegna er allt útlit fyrir að velferðarkerfið – öryggisnetið okkar – eigi eftir að veikjast enn frekar um leið og álagið á það á eftir að aukast.“

Ræðan formanns BSRB í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert