Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, telur að í stað þess að krefjast hækkunar lægstu launa sé réttara að krefjast þess að innbyggt verði í alla samninga hvert skuli vera hlutfallið á milli hins lægsta og hins hæsta.
„Þegar ég var yngri, og kannski baráttuglaðari að þessu leyti, taldi ég að alger jöfnuður ætti að ríkja þegar launin væru annars vegar en nú tel ég að einn á móti þremur væri ásættanlegt skref.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ætti þá um tvennt að velja í kjarasamningum við ríkisstarfsmenn, lækka sjálfan sig og sína líka í launum eða hækka hina lægstu þannig að þeir verði eigi lakar launaðir en næmi þriðjungnum af hans eigin launum,“ sagði Ögmundur í ræðu sinni á 1. maí fundi verkalýðsfélaganna á Selfossi í dag.
„Sama gilti um hinn yfirlýsingaglaða Þorstein Víglundsson og að sjálfsögðu forstjóra fyrirtækja og sveitarstjóra einnig,“ bætti Ögmundur við.
„Þessi nálgun hygg ég að yrði heilladrýgri en baráttan fyrir hækkun lægstu launa úr öllu samhengi við kjör þeirra sem munda pennann handan samningaborðsins,“ nefndi hann.
Ögmundur kom víða við í ræðu í sinni. Hann sagði það vera eilífðarhlutverk verkalýðshreyfingarinnar og félagslega ábyrgra afla að koma okkur á sama bátinn. Að draga úr misskiptingu og tryggja félagslegt réttlæti.
„Hagsmunir verkalýðshreyfingarinnar og samfélagsins fara saman þegar allt kemur til alls. Við megum ekki láta sérhagsmunaöfl spilla þeirri hugsun.
Við vissum það í barnaboðinu í gamla daga að þegar súkkulaðikakan var sett á borðið og eitt barnið vildi hrifsa hana alla til sín eða drjúgan hluta hennar – þá vissum við það og skildum að þetta var ekki eins og það átti að vera.
Börnum var öllum ljóst að þetta var rangt og létu þetta ekki viðgangast. Ef mamman sló ekki á fingur þá gerðu þau það,“ sagði Ögmundur.
Sama þyrfti að gerast í heimi hinna fullorðnu, í íslensku samfélagi.
„Þegar einhver reynir að hrifsa til sín meira en honum eða henni ber, þá eigum við að rísa upp, slá á fingur og krefjast réttlætis. Ég hef grun um að sá tími kunni að vera að renna upp að slá þurfi fast á fingur.“