Vill að tilboði Lauga verði hafnað

Stefán Loftur Stefánsson, deildarstjóri framkvæmdadeildar Kópavogsbæjar, leggur til að tilboði Lauga ehf., sem eiga og reka líkamsræktarkeðjuna World Class, í rekstur líkamsræktarstöðva í sundlaugum bæjarins verði hafnað. Hann vill að reksturinn verði boðinn út að nýju.

Laugar ehf. bauð best í útboði sem bærinn hélt en sundlaugarnar sem um ræðir eru Salalaugin og sundlaug Kópavogs.

Rekst­ur­inn var boðinn út eft­ir að Laug­ar ehf. kvartaði til Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins um að Kópavogs­bær væri að skekkja sam­keppn­is­stöðu á markaði með því að niður­greiða þessa starf­semi.

Á fundi bæjarráðs í gær, miðvikudag, var lögð til kynningar niðurstaða umhverfissviðs við yfirferð þeirra tveggja tilboða sem bárust. Tilboð Gym heilsu hf. var metið ógilt við yfirferð en tilboð Lauga ehf. uppfyllti hins vegar ekki kröfur útboðsgagna um að með tilboði skyldi leggja fram ársreikninga félagsins fyrir 2012 og 2013, yfirfarna og endurskoðaða af endurskoðanda.

„Deildarstjóri framkvæmdadeildar leggur til að tilboði Lauga ehf. verði hafnað og að útleiga á líkamsræktarstöðvum við sundlaugar í Kópavogi verði boðin út að nýju,“ segir í fundargerðinni.

Verður tillagan lögð fyrir framkvæmdaráð á næsta fundi þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert