Hópur fólks sem vinnur að því að stofna nýjan hægriflokk hefur nú opnað vefsíðu þar sem almenningi gefst kostur á að ganga til liðs við hópinn. Vefsíðan nefnist Vidreisn.is en ábyrgðarmenn hennar eru Benedikt Jóhannesson, Ellisif Tinna Víðisdóttir og Hanna Katrín Friðrikson.
Í samtali við mbl.is segir Benedikt að hugmyndin með nafninu, Viðreisn, hafi verið tvíþætt. „Við erum annars vegar að hugsa um viðreisn ákveðinna gilda í samfélaginu, að menn reisi aftur frjáls viðskipti og markaðslausnir til virðingar,“ segir hann.
„Þá vísar nafnið einnig til þess að þjóðfélagið sjálft fari að rísa aftur upp úr þeirri kreppu sem við höfum verið í, bæði andlega og fjárhagslega,“ bætir hann við.
„Hins vegar vísar nafnið aftur til tíma bestu stjórnar Íslandssögunnar. Þá afnámu menn höft, gerðu atvinnulíf á Íslandi fjölbreytilegra og Ísland gekk inn í EFTA.“
Á hann þar við Viðreisnarstjórnina sem var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins, en hún sat við völd á Íslandi á árunum 1959 til 1971.
Benedikt segir að nýja stjórnmálahreyfingin ætli ekki að hafa nein afskipti af komandi sveitarstjórnarkosningum. „Þannig að við munum hafa tiltölulega hægt um okkur í maí,“ segir hann aðspurður.
„Síðan á ég von á því að í júní, þegar sveitarstjórnarkosningunum er lokið, muni hópur fólks hittast og að menn muni huga að því hvernig þeir vilji vinna saman. Og í kjölfarið verði eins konar undirbúningsnefnd skipuð.
Það er langt í næstu kosningar, þrjú ár, og því er í sjálfu sér ekkert sem liggur á. Við munum bara vinna skipulagsvinnuna í rólegheitum.“
Fram kemur á vefsíðunni að stefnt sé að stöðugu efnahagslífi og fjölbreyttum atvinnutækifærum, verðmætasköpun með hugviti og skynsamlegri nýtingu auðlinda nú og til framtíðar.
Vill hópurinn að skuldir ríkisins verði lækkaðir og stefnt verði að hallalausum fjárlögum.
Þá vill hópurinn jafnframt að samningaviðræðum við Evrópusambandið verði lokið með hagstæðasta hætti fyrir Íslendinga og samningurinn borinn undir þjóðina.