Felldu eigin tillögu í borgarráði

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráð Reykjavíkur hefur ákveðið að staðfesta ekki samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á skipulags- og matslýsingum fyrir hverfi borgarinnar. Tillaga þess efnis var felld á fundi borgarráðs í dag.

Á fundinum var tekist á um hverfisskipulag Reykjavíkur. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti í síðustu viku verklýsingar um gerð slíks skipulags í átta borgarhlutum.

Skipulagið hefur vakið sterk viðbrögð meðal margra borgarbúa, en eins og Morgunblaðið greindi frá snerust hugmyndir borgaryfirvalda meðal annars um þéttingu byggðar í Vesturbænum með íbúðarhúsum þar sem nú eru bílastæði og bílskúrar.

„Ég minnist þess ekki að það hafi gerst áður að meirihluti borgarstjórnar hafi fellt eigin tillögu á fundi borgarráðs,” segir Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is. Hann segir að þetta sé mjög ákveðinn sigur fyrir borgarbúa.

Júlíus Vífill bendir jafnframt á að opnun gatna í þeim öfugsnúna tilgangi að auka bílaumferð í íbúðarhverfum muni auka slysahættu og óöryggi barna í þröngu gatnakerfi gamalla hverfa, þar sem aðgerðir í umferðaröryggismálum hafi í áratugi miðað að því að tryggja umferðaröryggi þeirra sem yngst eru.

Í bókun borgarráðs segir að ekki sé hægt að halda áfram vinnu við gerð hverfisskipulags á grundvelli fyrirliggjandi matslýsingar þar sem þær séu villandi í mikilvægum atriðum.

Fundargerðin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert