Segja flugvöllinn stærsta kosningamálið

Meirihlutinn í borgarstjórn virðir ekki samkomulagið sem gert var um sáttaferli Reykjavíkurflugvallar í október í fyrra. Þetta segja samtökin Hjartað í Vatnsmýri, sem saka borgarstjórn um árásir á flugvöllinn. Samtökin segja borgarstjórnarkosningarnar í maí snúast um Reykjavíkurflugvöll öðru fremur.

Samtökin Hjartað í Vatnsmýri boðuðu til blaðamannafundar á Reykjavíkurflugvelli í morgun til að kynna það sem þau segja árás borgarinnar á völlinn á þremur vígstöðvum samtímis.

Flugvöllurinn felldur í „ruslflokk“

 Í fyrsta lagi með skipulagningu byggðar á Hlíðarenda, sem samtökin segja að muni eyðileggja neyðarbraut flugvallarins. Þar með muni nothæfisstuðull vallarins fara niður fyrir 95% sem þýði að hann falli í ruslflokk.

Í öðru lagi nefna samtökin tilkynningu borgaryfirvalda um að flugskýli- og skóli í Fluggörðum verði rifin árið 2015. Slíkt niðurrif muni rífa hjarta kennslu og almannaflugs upp með rótum þar sem enginn annar staður sé í boði fyrir starfsemina.

Í þriðja lagi segja samtökin árás gerð á flugvöllinn Skerjafjarðarmegin, þar sem samþykkt hefur verið skipulag og tilkynnt um byggð sem á að rísa á neyðarbraut vallarins við Skerjafjörð. Þetta segja samtökin að muni eyðileggja neyðarbrautina og hafa alvarleg áhrif á flugsamgöngur til borgarinnar í verstu veðrum.

Segja samkomulagið ekki virt

„Fyrst og fremst leggjum við áherslu á það að borgarbúar átti sig á því að þessar kosningar núna, þær snúast um Reykjavíkurflugvöll öðru fremur,“ segir Friðrik Pálsson, annar formanna Hjartans í Vatnsmýri.

Í október 2013 skrifuðu fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group undir þverpólitískt samkomulag um innanlandsflug. Samkvæmt því verður norður-suðurbraut Reykjavíkurflugvallar látin liggja óhreyfð til ársins 2022, auk þess sem Ragna Árnadóttir mun leiða vinnu við að finna varanlegt stæði fyrir flugvöllinn á höfuðborgarsvæðinu.

Samtökin Hjartað í Vatnsmýri telja að meirihlutinn í borgarstjórn virði ekki þetta samkomulag, með því að fara í þær aðgerðir sem að ofan er lýst. Meirihlutinn fari fram með áður óþekktu offorsi gegn flugrekendum, fasteignaeigendum og flugnemum.

„Stærsta samgöngu- og öryggismál þjóðarinnar“

Aðspurður segist Friðrik telja að unnt væri að ná millilendingu í flugvallarmálinu, það þurfi ekki að vera annað hvort / eða. 

„En þá verða menn að tala um sama hlutinn. Það er dálítið merkilegt með þetta mál að borgaryfirvöld tala um þetta sem skipulagsmál, og byggingamál í Reykjavíkurborg. En allir aðrir en þeir sem hafa þrengstu hagsmuni um að koma þessum velli í burtu líta á þetta sem stærsta samgöngumál og öryggismál þjóðarinnar.“

Friðrik segir menn því tala í kross. „Ef menn fengjust nú til þess, eins og hugmyndin var með Rögnunefndinni, að í alvöru finna lausn á málinu og gefa því þann tíma sem þarf, þá er auðvitað hægt að finna lausn á þessu máli eins og öllu öðru, ég hef mikla trú á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka