Borgarráð samþykkti einróma í gær að fella tillögu umhverfis- og skipulagsráðs um hverfisskipulag fyrir hina ýmsu borgarhluta.
Upphaflega átti að vísa málinu aftur til umhverfis- og skipulagsráðs, en eftir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu kröfðust þess að greidd yrðu atkvæði um tillöguna var gert hlé á fundi.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir í Morgunblaðinu í dag að samstaða hefði myndast í ráðinu um að ekki væri hægt að halda vinnunni áfram og byggja á fyrirliggjandi gögnum því þau væru villandi. Vísaði hann til bókunar borgarráðs sem var svohljóðandi: „Ekki er hægt að halda áfram vinnu við gerð hverfisskipulags á grundvelli fyrirliggjandi matslýsinga þar sem þær eru villandi í mikilvægum atriðum.“