100 þúsund beiðnir um lífsýni

5-10.000 meðlimir í Slysavarnafélaginu Landsbjörg munu ganga í hús frá fimmtudegi til sunnudags og safna lífsýnum fólks sem tekur þátt í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar en fyrirtækið sendi ríflega 100 þúsund einstaklingum umslag í vikunni með munnspaða og beiðni um að gefa lífsýni í samanburðarhóp fyrirtækisins.

Sýnin eru dulkóðuð í geymslu ÍE en hægt verður að biðja um upplýsingarnar sem safnast í gegn um Persónuvernd. Rannsóknirnar hafa hlotið leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar. Landsbjörg fær svo 2.000 krónur fyrir hvert sýni sem samtökin skila ÍE en augljóslega er um afar umfangsmikla framkvæmd að ræða sem hefur verið í undirbúningi á undanförnum vikum.

Sýnin sem safnast verða nýtt í erfðarannsóknum ÍE og kortlagningu á eiginleikum mannfólks m.a. til að finna erfðabreytileika sjúkdóma. Á rúmum einum og hálfum áratug hefur fyrirtækið birt á fjórða hundrað vísindagreina sem vísa veginn við leitina að orsökum sjúkdóma á borð við krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma ásamt sykursýki.

Grundvöllurinn að árangri fyrirtækisins er stuðningur og þátttaka almennings. Vitneskja þjóðarinnar um sögu sína, ættir og uppruna gefur síðan vísindamönnum ÍE möguleika til að vinna upplýsingar úr þessum efnivið. Þannig hefur Ísland tekið forystu í rannsóknum á erfðafræði mannsins, að sögn Kára.

mbl.is ræddi við Kára Stefánsson, forstjóra ÍE, og Hörð Má Harðarson, formann Slysavarnafélagsins Landsbjargar, á fundi í Hörpu þar sem átakið var kynnt í hádeginu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert