Áætlað tap Icelandair Group vegna boðaðs verkfalls Félags íslenskra atvinnuflugmanna nemur um þrettán til fimmtán milljónum dollara eða um 1,5 til 1,7 millljarði króna, ef verkfallið varir allan þann tíma sem það hefur verið boðað.
Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.
Í fjárhæðinni eru áætlaðar tapaðar tekjur að frádregnum sparnaði vegna niðurfelldra fluga auk beins áætlaðs kostnaðar vegna aðstoðar við farþega.
Í fjárhæðinni eru hvorki hugsanleg áhrif yfirvinnubanns né áhrif verkfallsins á bókanir og tekjur félagsins á þeim dögum sem verkfallið stendur ekki yfir, að því er segir í tilkynningunni.
Jafnframt er ekki tekið tillit til hugsanlegra langtímaáhrifa verkfallsins á Icelandair Group og Ísland almennt sem áfangastaðar fyrir ferðamenn.
Engin niðurstaða fékkst í kjaradeilu flugmanna og Icelandair á fundi hjá sáttasemjara í gær. Fundurinn hófst klukkan 13 og stóð í um þrjár klukkustundir. Nýr fundur hófst klukkan níu í morgun.
Um 300 flugmenn starfa hjá Icelandair. Þeir hafa boðað til nokkurra verkstöðvana á næstu vikum náist ekki samningar. Verkstöðvanirnar eru boðaðar 9., 16. og 20. maí, en þær munu standa í tólf klukkutíma, frá klukkan sex að morgni til klukkan sex um kvöldið.