Einstæð móðir átti báða vinningsmiðana

Lottó íslensk getspá
Lottó íslensk getspá mbl.is

Stundum er raunveruleikinn ótrúlegri en nokkur lygasaga. Það á við um stóra lottópottinn sem fór út síðustu helgi. Vinningurinn skiptist á tvo miða en þegar einstæð þriggja barna móðir og öryrki kom til að sækja vinninginn sinn kom óvænt í ljós að hún á hinn vinningsmiðann líka og fær 84 milljónir króna í sinn hlut.

mbl.is sagði frá því á laugardaginn að sjöfaldur pottur lottós hefði skipst í helminga milli tveggja miðaeigenda, og hvor fengi 42 milljónir króna í sinn hlut. Einstæð móðir, sem er einnig 75% öryrki, kom á skrifstofu Íslenskrar getspár eftir helgi til að athuga hvort það gæti staðist að hún hefði unnið. 

Týndi fyrri miðanum

Að sögn starfsfólks Íslenskrar getspár hélt konan fyrir andlitið á sér í vantrú og sjokki yfir að 42 milljónir króna væru hennar. Hún sagðist hafa keypt lottómiða fyrir 2 vikum hjá Olís við Norðlingabraut en týnt honum og ekki verið viss hvort hann væri enn í gildi, svo fyrir helgi fór hún í sjoppu á Bústaðavegi og keypti aukamiða. 

Hún hálfhrasaði um þrepin inn í sjoppuna þegar hún keypti miðann og afgreiðslukonan spurði hvort fall væri ekki fararheill, áður en hún útbjó miðann: fjórar raðir með sömu tölum og hún hefur haft í 13 ár.

Fallið reyndist svo sannarlega fararheill. Þegar hún nefndi týnda miðann og hvar hann hafði verið keyptur runnu tvær grímur á starfsfólk Getspár, því vitað var að hinn vinningsmiðinn hafði selst í verslun Olís tveimur vikum fyrr. Eftir rannsóknarvinnu kom í ljós að sama konan átti báða miðana, en vinningurinn fengist ekki greiddur út nema hún fyndi hann.

Svarið kom að handan 

Konan var á heimleið til að snúa öllu við í leit að hinum miðanum, þegar henni hugkvæmdist að spyrja afa sinn heitinn hvar miðinn væri. Að sögn starfsfólks Getspár stóð ekki á svari, sem virðist því hafa borist að handan. Hún lagði bílnum og leit undir sætið, og þar beið miðinn.

Þegar hún kom í annað sinn á skrifstofu Getspár í Laugardalnum titraði konan og þurfti að hafa sig alla við að skrifa nafnið sitt. Þær mæðgur búa þröngt og verður þeirra fyrsta verk að kaupa húsnæði, bíl og jafnvel einhver húsgögn.

Þegar hún hafði jafnað sig sagði hún okkur frá góðum draumi um að hún ætti húsnæði skuldlaust og í draumnum var hún að sýna dóttur sinni pappírana um að þær ættu húsnæðið. Draumurinn verður að veruleika, ótrúlegir hlutir gerast, og í stað rúmlega 42 milljóna fær hún tæpar skattfrjálsar 84,5 milljónir, þökk sé miðanum sem kom í leitirnar,“ segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert