Ekkert Pollapönk í borgarstjórn

Jón Gnarr, borgarstjóri, vildi horfa á Eurovision.
Jón Gnarr, borgarstjóri, vildi horfa á Eurovision. Rósa Braga

Jón Gnarr, borgarstjóri, kvartaði undan því á fundi borgarstjórnar fyrir stundu að verið væri að ræða hverfisskipulag í Reykjavík á sama tíma og Pollapönkarar væru á sviði í Eurovision-keppninni í Kaupmannahöfn. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, furðar sig á forgangsröðun borgarstjóra. 

„Á fundi í borgarstjórn tók ég upp hverfisskipulagsvinnuna sem hefur valdið óvissu og óróa og hefur áhrif á hag margra. Þá bað borgarstjóri um orðið og kvartaði undan þessu því hann vildi hlusta á Eurovision í sjónvarpinu og að ég væri að trufla hann frá því verkefni,“ segir Júlíus Vífill. 

Störf í borgarstjórn beri að setja í forgang

Júlíus telur að borgarstjóra beri að setja störf í borgarstjórn í forgang. „Sérstaklega þar sem hverfisskipulagið hefur valdið mikilli ólgu og borgarbúar hafa staðið agndofa gagnvart þessum tillögum. Því vildi ég ekki gefa þetta eftir,“ segir Júlíus Vífill.

Umræðan um hverfisskipulagið fór fram yfir flutning Pollapönks í Eurivision-keppninni í Kaupmannahöfn. „Það er nú ekki alvarlegra en svo að menn geta farið á plúsinn í sjónvarpinu, eða í tölvuna og horft á þetta þar. En það er undarlegt þegar verið er að ræða stóru málin í borgarstjórn, þá fer þetta allt í einu að snúast um það hvort borgarstjóri geti fengið tíma til að horfa á Eurovision,“ segir Júlíus Vífill.

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson. Morgunblaðið/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert