Á gervihnattarmynd sem tekin var yfir landinu 1. maí síðastliðinn má sjá að suðvesturhorn landsins er nú orðið snjólaust að mestu. Snjór er ennþá nokkuð áberandi í öðrum landshlutum.
„Ég var að enda við að skoða mynd frá 1. maí á seinasta ári til samanburðar og við fyrstu sýn virðist snjómagnið vera ósköp keimlíkt,“ segir landfræðingurinn Ingibjörg Jónsdóttir um gervihnattarmyndina.
„En þá er ég aðeins að skoða hvar snjórinn er. Ég er ekki með tölur um það hversu þykkur hann er í dag, en ég hef heyrt að á sumum stöðum séu miklir skaflar eftir.“