Vinnumarkaðurinn er ekki að skapa nógu mörg störf fyrir háskólamenntað fólk og er áfram útlit fyrir töluvert atvinnuleysi meðal þessa hóps.
Þetta segir Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, sem telur að vegna fárra tækifæra muni margir sem ljúka háskólanámi í sumar kjósa að fara í lengra nám.
„Ef nú væri eðlilegt árferði væri verið að ráða fólk inn í fyrirtæki sem eru af stærri gerðinni. Þar má nefna stór þjónustufyrirtæki og fjármálastofnanir. Þau eru hins vegar ekki að taka við nýju fólki.“
Í fréttaskýringu um atvinnumálin í Morgunblaðinu í dag segir Lárus Blöndal, deildarstjóri hjá Hagstofu Íslands, Vinnumálastofnun beita aðferð sem mæli minna atvinnuleysi en Hagstofan áætlar.