Maður gekk inn í matvöruverslun á Akranesi og tíndi til vörur í körfu. Gekk síðan að afgreiðsluborðinu og bað um sígarettur. Þegar hann átti að borga sagði hann við afgreiðslustúlkuna: „Hringdu bara á lögguna“ og gekk út.
Lögreglan á Akranesi segir frá þessu atviki, sem gerðist í bænum í síðustu viku. Nóttina eftir fór öryggiskerfi sömu verslunar í gang og þegar starfsfólk kom að sá það mann hlaupa á brott. Brotist hafði verið inn, en litlu stolið.
Tjón var hinsvegar talsvert, að sögn lögreglu, því rúður höfðu verið brotnar og hurðir skemmdar. Lýsingum starfsfólks sem kom á vettvang um nóttina, og afgreiðslustúlkunnar fyrr um daginn, bar saman og undir morgun var maður handtekinn, grunaður um að hafa verið að verki í bæði skiptin.
Hann var færður til yfirheyrslu og játaði að hafa verið að verki um daginn, en kannaðist ekkert við að hafa brotist inn. Hann var látinn laus að yfirheyrslum loknum, en skömmu eftir að hann gekk út af lögreglustöðinni bárust nýjar upplýsingar, sem leiddu til þess að hann var sóttur á nýjan leik.
Að sögn lögreglu játaði hann þá innbrotið.