Sigmundur furðar sig á glerhöll

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, lét þau ummæli falla í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag að honum þyki sérkennilegt að Landsbankinn hyggi á byggingu nýrra höfuðstöðva rúmum fimm árum eftir bankahrun.

„Ég skal alveg viðurkenna að mér þykir óneitanlega mjög sérkennilegt ef menn eru farnir að velta því fyrir sér einungis fimm árum eftir að bankinn komst í þrot og skrapp í framhaldi af því mikið saman að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar, ég tala nú ekki um ef það yrði risastór glerhöll á dýrasta stað borgarinnar og þar með landsins. Það er reyndar önnur saga,“ segir Sigmundur Davíð.

Þá lét forsætisráðherra í ljós þá skoðun sína að nær væri að greiða arð í ríkissjóð, þar sem um ríkisbanka væri að ræða.

Ummælin lét hann falla þegar þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson gerði þrátefli Landsbankans og slitastjórnar gamla Landsbankans að umfjöllunarefni. Nýi Landsbankinn á eftir að semja um gjaldeyrisskuld sína við slitastjórnina.

Landsbankinn áformar að byggja nýjar höfuðstöðvar á Hörpureitnum við Reykjavíkurhöfn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert