Skuldaleiðrétting þarfnast endurskoðunar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra héldu blaðamannafund …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra héldu blaðamannafund í desember þar sem skuldaleiðréttingin var kynnt. mbl.is/Ómar

Ríkisskattstjóri telur að gildistaka frumvarps til laga um leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána þarfnist endurskoðunar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að unnt verði að sækja um leiðréttingu frá og með 15. maí. Ríkisskattstjóri telur dagsetninguna óraunhæfa því ætla megi að umfjöllun Alþingis taki nokkurn tíma.

Þetta kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarpið.

„Frumvarpið gerir ráð fyrir að unnt verði að sækja um leiðréttingu frá og með 15. maí 2014.
Ríkisskattstjóri telur að gildistaka frumvarpsins þarfnist endurskoðunar í ljósi þess hve nálægt er komið þeirri dagsetningu. Ætla verður að umfjöllun Alþingis muni taka nokkum tíma og  af þeim sökum verður ekki séð að umrædd dagsetning sé lengur raunhæf,“ segir í umsögninni.

Með frumvarpinu er lagt til að gerð verði almenn leiðrétting á verðtryggðum fasteignaveðlánum einstaklinga sem til staðar voru á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009.

Í umsöginni kemur jafnframt fram, að ríkisskattstjóri vilji benda á þá almennu staðreynd að í frumvarpinu sé miðað við að leiðréttingin taki til fasteignaveðlána heimila. Hann segir að hugtakið heimili sé vandmeðfarið þar sem „lagaleg skilgreining á hugtakinu er ekki til“.

„Hafa verður í huga að umrædd lagasetning beindist að sérstökum aðstæðum og var alveg óháð aðkomu skattyfírvalda og þeim upplýsingum sem skattframkvæmd byggir á, þar sem öll skattframtöl miðast við  hjúskaparstöðu, þ.e. hvort viðkomandi sé einstaklingur, í hjúskap eða sambúð sem uppfyllir skilyrði samsköttunar,“ segir í umsögninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert