Reykjavíkurborg skoðar Efstaleiti

Útvarpshúsið í Efstaleiti.
Útvarpshúsið í Efstaleiti. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur sent Reykjavíkurborg bréf með ósk um viðræður um nýtingu útvarpshússins og lóðarinnar að Efstaleiti. 

Bréfið var tekið fyrir á fundi borgarráðs í dag og samþykkt að skipa í sérstaka viðræðunefnd þau Ólöfu Örvarsdóttur, sviðstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og Hrólf Jónsson, sem stýrir skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar. Þetta kemur fram í fundargerð borgarráðs.

Þegar Magnús Geir tók við stöðu útvarpsstjóra sagði hann í samtali við mbl.is að Ríkisútvarpið væri „stofnun í of stórum fötum“. Skoða þyrfti hvort selja ætti útvarpshúsið eða gera á því breytingar. Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, var sömu skoðunar og sagðist í Kastljósinu í fyrra telja rétt að húsið yrði selt.

Höfuðstöðvar lögreglunnar?

Á vef Rúv er nú haft eftir Magnúsi Geir að markmið viðræðnanna við Reykjavíkurborg sé að skoða alla möguleika í framtíðar húsnæðismálum Rúv. Markmiðið sé að losa stofnunina úr þeirri fjárhagslegu spennitreyju sem húsnæðið er.

Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um það með hvaða hætti mætti nota útvarpshúsið. Þar á meðal sagði Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, að húsið myndi henta vel fyrir höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert