„Þessi hjól skila sér aldrei“

Mynd af svipuðu hjóli og Birgir Þór saknar.
Mynd af svipuðu hjóli og Birgir Þór saknar.

Hjól af dýrari gerðinni skila sér aldrei. Þessi skilaboð fékk Birgir Þór Halldórsson, hjólreiðamaður, þegar hann tjáði tryggingafélagi að hjólinu hans hefði verið stolið um hábjartan dag í Kópavogi. Birgir Þór ætlar þó ekki að gefast upp heldur hefur hann sett upp vefsíðu í von um hjólið skili sér.

„Þetta er dýrt, hjólið og búnaðurinn. Þess vegna auglýsi ég eftir því. Tryggingafélagið sagði mér að þessi hjól skiluðu sér aldrei og því varð ég að finna einhverja leið,“ segir Birgir Þór í samtali við mbl.is.

Klippt á lásinn fyrir utan vinnustaðinn

Hjólið, sem er af gerðinni Trek CrossRip Elite árgerð 2013, var læst fyrir utan vinnustað Birgis Þórs í Kópavogi. Klippt var á lásinn og hefur sá sem stal hjólinu því þurft að hafa töng eða annað sambærilegt verkfæri meðferðis.

Samstarfsmaður Birgis Þórs fór úr vinnu um fjögurleytið 29. apríl sl. og var hjólið þá enn fyrir utan húsið. Þegar Birgir Þór fór sjálfur úr vinnu rétt fyrir klukkan sex sama dag var hjólið horfið.

„Ég ráðlegg fólki að hafa virkilega góða lása, helst úr alvöru járni þannig að það þurfi slípirokk til að taka þá í sundur,“ segir Birgir Þór. „Ég hvet fólk sem á dýrari hjól einnig til að skoða tryggingarnar sínar. Ég taldi mig vera tryggður, en þar sem ég á ekki nógu mikið innbú er ég í lægri flokki og þá var hjólið mitt einnig í lægri flokki.“

Gjafabréf á Argentínu Steikhús

Birgir Þór hefur kært þjófnaðinn til lögreglu. Hann setti síðuna upp sjálfur í nótt og hefur þegar fengið ágætis viðbrögð. „Hefur einhver nágranni þinn, vinnufélagi eða kunningi eignast svona hjól á síðustu dögum og er það möguleiki að þetta sé hjólið mitt,“ spyr hann á vefsíðunni.

Þá er annað sem vekur athygli á vefsíðunni. „Fyrir þá sem deila þessari síðu og skrá nafn sitt í pott hér til hliðar á síðunni geta unnið 20.000 kr. gjafabréf á Argentínu Steikhús,“ segir á síðunni.

„Því biðla ég til allra um að litast um eftir hjóli sem svipar til þess sem er á myndinni hér til hægri á síðunni. Leynist svona hjóla nokkuð í hjólageymslunni hjá þér, fyrir utan vinnustaðinn eða er jafnvel verið að bjóða þér svona hjóla til kaups,“ segir Birgir Þór á síðunni. 

Finnum hjólið - vefsíða

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert