Fjallagarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir gekk á Vífilsfell í morgun ásamt hópi fólks sem tók þátt í morgungöngu á vegum VÍS. Hún kom aftur til Íslands á sunnudag eftir átakanlega ferð til Nepals þar sem hún upplifði mannskæðasta slys í sögu Everest-fjalls. Sextán manns létu lífið og þar á meðal þrír úr hennar starfsliði.
Ferðafélag Íslands og VÍS hafa staðið fyrir morgungöngum í þessari viku þar sem gengið hefur verið á fjöll í nágrenni Reykjavíkur. Síðasta gangan er á morgun en gengið verður á Úlfarsfell. Lagt er af stað frá bílastæði sunnan fellsins, við veg sem liggur upp á það.
Þetta er árviss viðburður sem nú er haldinn í 10. skipti. Brottför er kl. 6:00 á einkabílum frá húsi FÍ, Mörkinni 6 alla dagana. Hægt er að mæta beint á upphafsstað göngu.
Göngurnar taka 2-3 klst. hver. Fararstjórar eru Páll Guðmundsson og Auður Kjartansdóttir.