„Það skýtur því skökku við að hér skuli stöðugt vera talaðar niður góðar tillögur eins og höfuðmarkmið þessarar ríkisstjórnar um að hjálpa fjölskyldum í þessu landi að rísa á lappirnar aftur – að vinstri menn skuli í ræðu eftir ræðu tala niður þetta höfuðmál okkar að leiðrétta hag fjölskyldnanna í landinu.“
Þetta sagði Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Tilefnið voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skulda heimilanna. Gagnrýndi hún ennfremur embætti Ríkisskattstjóra fyrir að hafa gagnrýnt aðgerðirnar á síðustu stundu á þeim forsendum að ekki lægi fyrir hvað "heimili" væri [hugtakið] þrátt fyrir að embættið hafi fylgst með mótun aðgerðanna frá byrjun.
„Hér hefur ákveðið embætti fylgst með og fengið að vera með frá byrjun. Það segir í umsögn sinni til nefndarinnar að það sé fátítt að það fái að starfa með alveg frá upphafi eins og raunin var hér. Mér finnst mjög sérkennilegt að það komi svo fram á lokamínútunni að þetta embætti geti ekki skilgreint hvað heimili er. Ég kíkti í orðabók Marðar Árnasonar og þar er talað um að heimili sé bústaður til einkanota manns að staðaldri. Ég held að við getum bara haft þá skilgreiningu.“
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, svaraði Sigrúnu og mótmælti þeirri skoðun að þeir sem væru á móti aðgerðum ríkisstjórnarinnar væru þar með á móti því að gera eitthvað fyrir heimilin. Sagði hann aðgerðirnar algerlega út í loftið án þess að hjálpa þeim sem væru í raunverulegum greiðsluvanda. „Ég sé ekki hvernig það er alveg augljóst að þetta sé það besta sem við getum gert fyrir heimilin.“