Hundar hræddir og leirtau glamraði

Skjálftinn fannst vel á Selfossi.
Skjálftinn fannst vel á Selfossi. mbl.is/Árni Sæberg

„Það glamraði vel í leirtauinu hér í eldhúsinu,“ sagði Tómas Þóroddsson veitingamaður í Tryggvaskála á Selfossi. Hann varð jarðskjálftans nú á ellefta tímanum vel var og segir hann hafa verið mjög snarpan.

„Þetta var gott högg, sem gekk yfir kannski á 3 - 4 sekúndum,“ segir Tómas sem telur engar skemmdir hafa orðið í Tryggvaskála, elsta húsi Selfossbæjar.

Skjálftinn mældist 4,0 að stærð samkvæmt Veðurstofu Íslands.

Almannavarnir fylgjast með

Í stjórnstöð björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð er fylgst með stöðunni og frekari upplýsingum þegar og ef þær berast. 

„Við fylgjumst með þróuninni,“ sagði Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í samtali við mbl.is fyrir stundu.

Ekki hafa borist upplýsingar um tjón eða skaða en ljóst er að skjálftinn fannst víða.

Smáhlutir duttu á gólfið

Ívar Bjarki Magnússon lögregluþjónn á Selfossi var heima á frívakt þegar skjálftinn kom. „Þetta var alveg fyrirvaralaust. Ég skynjaði engar bylgjur áður,“ segir Ívar Bjarki. Hann segir allt hafa sloppið til á heimili sínu, en hundurinn hafi orðið órólegur að skjálftanum afstöðunum.

mbl.is heyrði einnig frá Sólrúnu Lilju Ragnarsdóttur sem stödd er í Biskupstungum. Að hennar sögn duttu smáhlutir á gólfið þegar skjálftinn reið yfir. Einn af fjórum hundum hennar var staddur úti og gelti rétt áður en bylgjan skall á þeim. Hann þorði ekki að koma inn í langan tíma á eftir, að sögn Sólrúnar.

Sjá einnig: Snarpur skjálfti við Hestfjall

Tómas Þóroddsson veitingamaður á Selfossi
Tómas Þóroddsson veitingamaður á Selfossi mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert