Ráðherra gekk í málið

Chandrika Gunnarsson er hæstánægð með breytingarnar á Austur-Indíafjelaginu.
Chandrika Gunnarsson er hæstánægð með breytingarnar á Austur-Indíafjelaginu. Árni Sæberg

Fáeinum mánuðum eftir að hjónin Chandrika og Gunnar Gunnarsson opnuðu veitingastaðinn Austur-Indíafjelagið á Hverfisgötu árið 1994 stóð Chandrika enn við pottana vegna þess að illa gekk að fá tilskilin leyfi fyrir indverskan matreiðslumeistara sem beið ferðbúinn í heimalandi sínu.

Það var svo föstudagskvöld eitt síðla árs 1994 að hjón pöntuðu sér borð á Austur-Indíafjelaginu. Þeim líkaði maturinn og spurðu Chandriku hver matreiðslumaðurinn væri. Hún svaraði því til að það væri hún sjálf, kasólétt og gegn læknisráði, vegna þess að illa gengi að fá leyfi til að flytja indverskan matreiðslumeistara til landsins. Þetta þótti gestunum miður og maðurinn tók upp nafnspjald og vísaði Chandriku um leið á konu í félagsmálaráðuneytinu. „Farðu til hennar strax á mánudagsmorguninn og segðu að ég hafi sent þig,“ sagði hann.

Chandrika bar ekki kennsl á manninn en þakkaði pent fyrir.

Daginn eftir færði hún þetta í tal við bónda sinn og sýndi honum nafnspjaldið. Færðist Gunnar þá allur í aukana. „Þú verður að fara strax á mánudaginn að hitta þessa konu. Þessi maður heitir Friðrik Sophusson og er fjármálaráðherra landsins.“
Chandrika lét ekki segja sér það tvisvar. Fór að finna konuna, Berglindi Ásgeirsdóttur, ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu. Hún leit strax á málið og sá að matreiðslumeistarinn hafði öll tilskilin réttindi og fyrir vikið væri ekkert að vanbúnaði. Fáeinum vikum síðar var hann kominn til landsins – og hefur verið hér síðan.

Endurbótum við Austur-Indíafjelagið er nýlokið og var staðurinn opnaður að nýju um síðustu mánaðamót. Fyrirhugað var að hefja framkvæmdirnar í desember eða janúar en það dróst vegna seinkunar á framkvæmdum við Hverfisgötuna. Í mars var hægt að byrja á nýja rýminu en staðnum var lokað vegna framkvæmdanna 1. apríl.
„Þetta var mikill sprettur,“ viðurkennir Chandrika. „Okkur hefði aldrei tekist að ljúka þessu nema vegna þess að við höfðum einvalalið iðnaðarmanna með okkur. Starfsfólk okkar lagði líka mikið á sig. Stemningin og orkan í hópnum var ótrúleg og þegar ég lít til baka yfir þetta tímabil kemur orðið „stuð“ miklu frekar upp í hugann en „streð“. Þetta var rosalega skemmtilegt.“
Þegar mest var voru upp undir tuttugu manns að störfum. „Það var handagangur í öskjunni. Þetta var eins og sjónvarpsþáttunum, þar sem fólk keppir sín á milli í að gera upp húsnæði. Og við unnum!“
Hún skellir upp úr.

Nánar er rætt við Chandriku í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nýr og glæsilegur matsalur veitingahússins.
Nýr og glæsilegur matsalur veitingahússins. Árni Sæberg
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert