„Það er komið samkomulag um það að við ætlum að klára okkar verk núna á þessari viku sem er framundan. Viðræður hafa átt sér stað og menn eru nokkuð á sömu línum um að ljúka þessu 16. maí,“ segir Sigrún Magnúsdóttir þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Í forgangi er að ljúka frumvarpi til laga um breytingar á veiðigjöldum, um skuldaleiðréttingar og skattaafslátt vegna séreignalífeyrissparnaðar, auk margra annarra mála sem komin eru lengst í þinglegri meðferð. Evrópumálin verða sett til hliðar í bili og afgreiðast ekki fyrir þinglok.
„Það er alveg ljóst að það er með það, eins og fjöldamörg önnur, sem hafa verið flutt og eru stödd í nefndum þar sem þau þurfa meiri vinnslu og munu þar af leiðandi ekki afgreiðast. En eins og við segjum stundum þá getur verið gott að láta sumarið líða. Því menn hafa heyrt umræður, vinna þá kannski betur yfir sumarið og svo er það flutt að hausti.“
Náist stóru málin ekki fram er sá möguleiki fyrir hendi að boða sumarþing en stefnt er að því að svo verði ekki. Sigrún segir þingmenn bjartsýna á að takist að ljúka þingstörfum á tilsettum tíma.
„Það var jákvæður andi í þinghúsinu í dag og þingstörf gengu mjög vel. Ég held við höfum klárað ein 23 mál, þannig að það er ekki hægt að segja annað en að það hafi gengið vel.“
Sjá einnig: Sumarþing til skoðunar