Flestir nota vímuefni skynsamlega

Nadelmann segir að stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum og flestum öðrum …
Nadelmann segir að stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum og flestum öðrum ríkjum heimsins, sé á rangri leið og að betra væri að lögleiða neysluna. Árni Sæberg

Sú refsistefna sem er í gangi í málefnum fíkniefna er ekki einungis á rangri leið heldur hefur hún valdið mun meiri skaða en hún kemur í veg fyrir. Þetta segir Dr. Ethan Nadelmann, framkvæmdastjóri The Drug Policy Alliance, bandarískra baráttusamtaka gegn ríkjandi stefnu í fíkniefnamálum, en hann hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands og fór þar yfir kosti og galla þess að breyta um stefnu. Hans skoðun er að finna þurfi leið til þess að gera vímuefni lögleg fyrir þá sem vilji neyta þeirra, án þess að það komi niður á lýðheilsu.

Flestir neyta vímuefna skynsamlega

Nadelmann segir að flestir sem neyti áfengis geri það á skynsaman hátt. „Það sama á við um marijúana, kókaín, ofskynjunarlyf og jafnvel um heróín,“ segir hann. Sjálfur viðurkenndi Nadelmann að hafa neytt kannabisefna, kókaíns og ofskynjunarlyfja og taldi það síðastnefnda meðal annars hafa haft góð áhrif á sig. „Ég tel mig vera farsælan neytanda,“ sagði Nadelmann, en tók þó fram að hann hefði ekki neytt ólöglegra efna á Íslandi.

Nadelmann er alls ekki óþekktur þegar kemur að umræðum um fíkniefni og stefnu stjórnvalda. Hann er doktor í stjórnmálafræði frá Harvard og með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá London School of Economics. Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri The Drug Policy Alliance hefur hann komið að stefnumótun vegna lögleiðingar marijúana í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna og í Úrúgvæ. Þá hefur hann unnið fyrir innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og gert rannsóknir á fíkniefnamálum, löggæslu í tengslum við fíkniefnabrot og áhrif á samfélagið.

Vill leyfa notkun sem veldur ekki vandamálum

Undanfarin ár hefur hann barist fyrir því að dregið verði úr refsistefnu gegn fíkniefnum. Benti hann á að í Bandaríkjunum væri fjöldi fanga gífurlega hár, meðal annars vegna harðra viðurlaga við fíkniefnabrotum. Sagði hann að þótt Bandaríkjamenn væru aðeins 5% af íbúum jarðarinnar, þá væru þeir 25% af heildarfjölda fanga. Þetta væri hæsta hlutfall í sögu lýðræðisríkis í heiminum. Meðal annars hafi hlutfall þeirra sem fóru í gúlagið í Sovétríkjunum verið mun lægra.

„Leyfum fólki, sem er í þeim hópi að geta notað vímuefni án þess að það sé að orsaka vandamálum, að nota þau,“ sagði hann, en bætti við að auðvitað þyrfti að gera eitthvað í þeim sem valda vandræðum. Vísaði hann meðal annars í stefnu Portúgals, þar sem stjórnvöld hafa gefið út að þau muni ekki gera neyslu fíkniefna að refsiverðu athæfi, en ef neytendur brjóti á annan hátt af sér, t.d. með innbrotum, þá sé enginn afsláttur gefinn.

Þrjú atriði sem þarf að breyta

Nadelmann sagði að það væru helst þrjú atriði sem hann væri að berjast fyrir. Fyrst væri það að draga úr fyrrnefndri refsistefnu. Í öðru lagi teldi hann rétt að komið væri upp aðstöðu fyrir fíkla þar sem dregið væri úr slæmum áhrifum neyslunnar. Meðal annars væri það hægt með að veita þeim hreinar nálar, öruggt svæði til neyslu þar sem hjúkrunarstarfsmenn væru til taks og að lokum með að gera fólki sem vill neyta efna kostur á að kaupa þau löglega.

Núverandi stefna hefur kostað hundruð þúsundir lífið

Núverandi refsistefna, sem hefur dreifst víða um heim, meðal annars vegna áhrifa Bandaríkjanna, hefur kostað þúsundir manna lífið. Sagði hann að nokkur ríki hefðu farið þá leið á síðustu áratugum að reyna að tryggja hreinlæti fíkla. Í Ástralíu, Bretlandi og Hollandi, þar sem hreinum nálum hafi verið dreift, hafi hlutfall sprautufíkla með HIV aðeins verið 2-4% meðan það hafi náð allt að 30-50% í mörgum löndum með mun harðari stefnu. Segir hann að í Bandaríkjunum einum og saman hafi þessi harða stefna kostað um 200 þúsund manns lífið á síðustu þremur áratugum.

Ekkert samfélag er laust við fíkniefni og sagði hann að svo yrði aldrei. „Þetta er ekki spurning um hvernig við losnum við vímuefni eða hvernig við byggjum veggi milli efnanna og fólksins, heldur þurfum við að anda djúpt og sættast á að þessi efni eru hérna til frambúðar,“ sagði hann. Það þarf svo að byggja á þessum raunveruleika og móta samfélagið þannig að neyslan valdi sem minnstum skaða og leiði til sem mests hags. „Markmiðið ætti að vera að minnka hlutverk réttarkerfisins og draga úr refsistefnu í málefnum fíkniefna eins og hægt er á sama tíma og ýtt er undir lýðheilsu,“ sagði Nadelmann.

Ókostir við lögleiðingu...

Lögleiðing fíkniefna er þó ekki einföld aðgerð og sagði hann að það væru einnig gallar við það. Þannig væri hann hræddur um að lögleiðing gæti leitt til frekari vandamála með fíkn hvers einstaklings, þó að rannsóknir hefðu sýnt að lögleiðing ýtti ekki undir fjölda neytenda. Þá gætu lyfjafyrirtæki einnig búið til meira ávanabindandi vímuefni, svipað og gerðist með sígarettur. Sagði Nadelmann að fyrirtæki reyndu allt sem þau gætu til að ýta undir neyslu og í sjálfu sér væru skyndibitakeðjur að leika sama leikinn með fíkn fólks í sykur, fitu og salt.

...en kostirnir meiri

Kostirnir við lögleiðingu eru þó mun meiri að mati Nadelmann, en hann segir að þetta muni draga úr svartri skipulagðri glæpastarfsemi, lækka glæpatíðni, minnka tíðni smita hjá sprautufíklum, afglæpavæða hluta þjóðfélagsins og í leiðinni minnka kostnað vegna löggæslu og fangelsa. Á móti þyrfti væntanlega að setja aukna peninga í ráðgjöf og aðstoð við neytendur, en engu að síður væri kostnaðurinn minni.

Aðspurður um það hvernig hann sæi stöðu Íslands í þessum efnum sagði Nadelmann að það væri algjörlega óásættanlegt að í lýðræðisríki eins og Íslandi hefði fólk ekki aðgang að marijúana í læknislegum tilgangi. Þá taldi hann að refsistefnan hér væri of ströng og nefndi dæmi um að hér væri auðveldara að taka börn af foreldrum sem neyttu kannabisefna en væru að öðru leyti góðir foreldrar, en af þeim sem ættu við áfengisvanda að stríða og gengju jafnvel fram með ofbeldi við börnin. Hann sagði aftur á móti að það heillaði sig hversu fáir væru í raun handteknir hér vegna neyslu og að það benti til þess að menn teldu neysluna ekki jafn refsiverða og lögin bentu til.

Hræsni á Íslandi

Að lokum sagði hann að miðað við það sem hann hefði heyrt væri umræða um vímuefni komin mjög stutt á leið hér á landi. Þannig hefði ekki mikið verið rætt um neyslu þingmanna eða hátt settra einstaklinga í þjóðfélaginu. Á sama tíma væri nokkuð almenn umræða um fyrrum neyslu þingmanna í Bandaríkjunum og þar væri það ekkert launungarmál. Sagði Nadelmann að í ljósi þess að allt að 40% Íslendinga hefðu prufað marijúana, samkvæmt könnunum, þá væri ljóst að hluti þingmanna, stjórnenda fyrirtækja o.fl. hefðu neytt fíkniefna eða væru neytendur í dag. Það fælist því ákveðin hræsni í því að ekki væri meira fjallað um málefnið á hreinskilnum nótum.

Fjöldi manns kom í Háskóla Íslands og hlustaði á fyrirlestur …
Fjöldi manns kom í Háskóla Íslands og hlustaði á fyrirlestur Nadelmann. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert