Lélegar kerrur fá rauða spjaldið

Lögreglan birtir þessar myndir sem dæmi um kerrur sem eru …
Lögreglan birtir þessar myndir sem dæmi um kerrur sem eru ekki í lagi miðað við hvað verið er að flytja. mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekur athygli á því að nú fari í hönd sá tími þegar garðvinna standi sem hæst. Bent er á að slíkri vinnu fylgi oft allskonar flutningar en því miður séu of margir sem dragi fram gamlar kerrur sem eru í lélegu ásigkomulagi, vanbúnar og ekki hæfar til notkunar í umferð.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar.

Þar segir, að slíkir kerrueigendur segi gjarnan að þeir séu bara á „stystu leið í Sorpu/Byggingarvöruverslun og svo heim”.

„Því miður gildir sú afsökun stutt enda gera slysin ekki boð á undan sér en slys gerast jafnt á lengri sem skemmri vegalengdum. Því gildir að öll ökutæki, aftanívagnar og slíkt sé í lögboðnu ástandi og með viðeigandi öryggisbúnað,“ segir lögreglan.

Hún bendir jafnframt á hagnýtar upplýsingar sem almenningur getur kynnt sér um kerrur, hestakerrur, tjaldvagna, hjólhýsi og aðra eftirvagna fyrir fólksbifreiðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert