Níumenningarnir verðlaunaðir

Frá afhendingu verðlaunanna í dag.
Frá afhendingu verðlaunanna í dag.

Á Náttúruverndarþingi frjálsra félagasamtaka sem fram fór í dag var níumenningunum sem kærðir hafa verið fyrir mótmæli í Gálgahrauni veitt verðlaunin Náttúruverndarinn.

„Níumenningarnir eru fulltrúar fyrir stærri hóp Hraunavina sem stóð vaktina í Gálgahrauni í heilan mánuð síðastliðið haust og reyndi þannig að stöðva vegaframkvæmdir sem klufu þessa sögulegu og kynngimögnuðu hraunbreiðu í tvennt. Þessi ötula barátta endaði 21. október sl. með stærstu fjöldahandtöku á Íslandi á síðari árum. Tuttuguogfimm manns voru færð í fangageymslur og einangrunarklefa og mörg þeirra tvisvar fyrir að mótmæla friðsamlega í hrauninu. Af þessum hópi voru níu manns ákærðir,“ segir í fréttatilkynningu.

Tinna Þorvalds-Önnudóttir, ein níumenninganna, þakkaði fyrir hönd hópsins og sagði að þau tækju á móti þessum verðlaunum í þeirri von „að barátta okkar verði til þess að náttúruverndarsinnum alls staðar á landinu vaxi ásmegin, að þeir þori að láta til sín taka“. Tinna hvatti náttúruverndarsamtök til að „krefjast þess að engar meiriháttar framkvæmdir fari fram á láði eða legi án þess að unnendur íslenskrar náttúru séu hafðir með í ráðum.“ Jafnframt lagði Tinna áherslu á að lagabætur yrðu gerðar vegna innleiðingar Árósasamningsins sem tryggði ekki aðkomu náttúruverndarsamtaka að dómsmálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert