„Við stöndum ekki að neinum skæruhernaði. Við erum bara að vinna vinnuna okkar,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Hann mótmælir fréttatilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í kvöld.
Flugmenn Icelandair hafa sett á ótímabundið yfirvinnubann, en það leiðir til þess að flugfélagið nær ekki að manna allar vélar og hefur því ákveðið að fella niður ellefu flugferðir á morgun. Búast má við töfum á flugi í kjölfarið.
Hafsteinn segir að aðgerðir flugmanna séu ekki neinn skæruhernaður. Þeir vinni bara í samræmi við það skipulag sem Icelandair byggi á. Flugfélagið sé hins vegar ekki með nægilegan mannskap til að halda uppi eðlilegri áætlun án þess að flugmenn vinni yfirvinnu.