Izekor Osazee, sem handtekin var í morgun og tilkynnt að hún yrði send úr landi til Finnlands í fyrramálið, hefur verið sleppt úr haldi lögreglu. „Hún er komin aftur til mín,“ segir eiginmaður hennar, Gísli Jóhann Grétarsson.
Þá hefur brottvísuninni verið frestað að sinni, að sögn Helgu Völu Helgadóttur lögmanns þeirra hjóna. „Ég fékk símtal núna fyrir skömmu frá Útlendingastofnun sem sagði að henni verði sleppt úr haldi og henni verði ekki brottvísað í fyrramálið og mér skilst að þau ætli núna í framhaldinu að skoða málefni maka íslenskra ríkisborgara í heild sinni og búa til stefnumótun um það hvernig eigi að taka á því,“ segir Helga Vala.
Mál Izekor er því á ís í bili en óvíst er um framhaldið.
Kristín Völundardóttir forstjóri Útlendingastofnunar situr nú á fundi í innanríkisráðuneytinu vegna málsins. Hún ræddi stuttlega við mótmælendur við stofnuna fyrr í dag og hefur Rúv þaðan eftir henni að mál Izekor sé einstakt því ekki hafi áður komið inn á borð Útlendingastofnunar mál þar sem hælisleitandi hafi gifst íslenskum ríkisborgara eftir að hafa fengið synjun um dvalarleyfi á Íslandi.
Izekor er frá Nígeríu en tvö ár eru síðan hún kom til Íslands og sótti hér um hæli, en var neitað. Útlendingastofnun ákvað að hún skyldi send til baka til Finnlands, þaðan sem hún kom til Íslands, og innanríkisráðuneytið staðfesti þá ákvörðun.
Þann 12. apríl síðast liðinn gengu þau Gísli hinsvegar í hjónaband og hefur hún sótt um dvalarleyfi á grundvelli þess að eiga íslenskan eiginmann.
Samkvæmt lögum þarf útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti að gera það áður en hann kemur til landsins. Þó má víkja frá þessu ef „ríkar sanngirnisástæður mæla með því eða samkvæmt reglum sem ráðherra setur“ (nr.96/2002 gr.10)
Sjá einnig: Eiginkona Íslendings verður send úr landi