Þunglega horfir í kjaradeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair, en nýr samningafundur hjá ríkissáttasemjara er boðaður eftir hádegi í dag.
„Ég er fjarri því bjartsýnn á lausn. Við höfum kynnt okkar kröfur, en viðsemjendur okkar hafa lítið viljað ræða þær né koma til móts við okkur. Í raun er þetta pattstaða,“ sagði Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, í samtali við Morgunblaðið.
Hjá Icelandair gera menn ráð fyrir að allt flug félagsins í dag verði á áætlun. Þannig skapast stundarfriður en frá því aðgerðir flugmanna hófust sl. föstudag hefur félagið fellt niður alls 51 ferð, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Varðandi gærdaginn, sunnudag, sagði Hafsteinn að Icelandair hefði hætt við átta ferðir, sem þó hefðu verið fullmannaðar.
„Ástæður þess að ferðirnar voru felldar út vitum við ekki. Hvað varðar aðrar ferðir sem voru teknar af áætlun er veruleikinn sá að vaktaplönin ganga ekki upp, menn ekki búnir að fá þann hvíldartíma sem áskilinn er, hafa ráðstafað sér annað og svo framvegis.“
Flugfreyjur hafa samþykkt verkfall, en mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í almennri atkvæðagreiðslu Flugfreyjufélags Íslands fyrir helgi var því fylgjandi. Alls greiddu 287 atkvæði; já sögðu 276 en nei 11. Náist ekki samningar tekur yfirvinnubann gildi næsta sunnudag, 18. maí. Í framhaldinu koma vinnustöðvanir.
„Afstaðan er mjög skýr,“ segir Sigríður Ása Harðardóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Flugfreyjufélag Íslands hefur boðað ótímabundið yfirvinnubann frá og með kl. 6 þann 18. maí 2014 og verkfall á eftirtöldum tímum: Frá kl. 6:00 þann 27. maí 2014 til miðnættis sama dag. Frá kl. 6:00 þann 6. júní til kl. 6:00 þann 7. júní 2014. Frá kl. 6:00 þann 12. júní til kl. 6:00 þann 14. júní 2014. Ótímabundið frá kl. 6:00 þann 19. júní 2014. Óvíst er hvaða áhrif yfirvinnubannið og verkfallið mun hafa á afkomu Icelandair Group.