Megum ekki sofna á verðinum

mbl.is/Eggert

Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á vísinda- og þróunarsviði Landspítala, segir að reynt hafi verið að standa vörð um vísindastarf spítalans á undanförnum árum en hins vegar hafi sá mikli niðurskurður, sem spítalinn hefur þurft að þola, óneitanlega sett mark sitt á rannsóknarstarfsemi hans, líkt og flest annað í starfsemi spítalans.

„Bæði hefur mannekla gert það að verkum að menn hafa haft minni tíma til að sinna vísindarannsóknum og þá er innlenda styrkjaumhverfið einnig í býsna þröngri stöðu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Fjármunir hafi farið þverrandi en aftur á móti hafi verið reynt að standa vörð um Vísindasjóð Landspítala. „Hann er reyndar ekki mjög burðugur en engu að síður er það mikilvægt að stjórnendur spítalans hafa reynt að halda í horfinu og jafnvel efla sjóðinn á þessum tímum. Það er jákvætt.“

„Mikið styrkleikamerki“

Magnús bendir á að ýmsir mælikvarðar, eða árangursvísar, séu notaðir til að meta gæði vísindastarfs. „Það er til dæmis hefðbundið að telja birtar greinar í erlendum vísindatímaritum, bókakafla og innlendar fræðigreinar. Það er gert á hverju ári og er árangurinn borinn saman eftir á,“ segir hann.

Sé litið til þessarar tölfræði kemur í ljós að vísindamönnum spítalans hefur tekist að halda í horfinu hvað þessi atriði varðar.

„Og það er líka ánægjulegt að líta til þess að næstum því 70% af vísindagreinunum eru skrifaðar í samstarfi við rannsakendur erlendis. Það er mikið styrkleikamerki,“ segir Magnús og bætir því við að það sé jafnframt talsvert yfir meðallagi nágrannaríkja okkar.

„Það er greinilegt að rannsakendur hér eru að reyna að vinna með erlendum vísindamönnum og rannsóknahópum þrátt fyrir þröngan kost hér heima. Það er mjög lofsvert.“

Staðan dekkri á öðrum sviðum

Sé hins vegar litið til þess í hve miklum mæli vitnað er í greinar sem koma frá vísindamönnum Landspítalans, þá er staðan heldur dekkri. „Þar hefur orðið breyting til hins verra og í raun býsna dramatísk breyting,“ útskýrir Magnús.

Nú er nýkomin út skýrsla á vegum Nordforsk sem sýnir stöðu Landspítala í samanburði við 53 norræna háskóla og háskólasjúkrahús á sviði heilbrigðisvísinda. Staða spítalans hvað tilvitnanatíðni varðar var býsna sterk á árunum 2000 til 2007 og var Landspítali þá í hópi þeirra 10% bestu (90. percentil), en mælingar fyrir tímabilið 2008 til 2011 sýna að hann er nú kominn niður fyrir miðjan hóp og er meðal neðstu 10% (10. percentil).

„Ástæður þessarar breytingar þarf að skoða betur. Kannski er lærdómurinn sá að þó að það hafi tekist að reyna að standa vörð um vissa þætti í starfseminni, þá höfum við færst mjög aftarlega í röðina vegna þess að háskólar og kennsluspítalar á Norðurlöndunum hafa verið að gefa í. Við erum orðin eftir á þess vegna. Þetta er allt spurning um innbyrðisröð,“ segir hann.

Fullviss um að afstaðan hafi batnað

Fram kemur í ársskýrslu um vísindastarfið í fyrra að fjöldi nema sem stunda meistara- og doktorsnám með tengingu við Landspítala hafi haldist nokkuð stöðugur undanfarin ár og fjöldi nýrra rannsóknarverkefna sem heimild hefur verið veitt fyrir haldist svipaður.

Magnús bendir hins vegar á að á liðnum vetri hafi komið fram sterkar vísbendingar um að ótrúlega margir nemar í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands gætu ekki hugsað sér Landspítala sem framtíðarvinnustað.

„Það er auðvitað mjög alvarlegt,“ segir Magnús.

„Þessar niðurstöður komu fram í könnunum sem gerðar voru meðal lækna- og hjúkrunarnema. Þá var umræðan um spítalann mjög mikil og almennt neikvæð. Síðan hefur eitt og annað verið gert. Ég er alveg fullviss um að afstaða nemanna hefur batnað. Það hefur verið gert mjög margt til þess að taka betur á móti þeim og reyna að sinna þeim betur.

Ég finn það bara sjálfur - því ég er að kenna mjög mikið - að það er ekki eins líklegt nú að svörin yrðu jafn afgerandi slæm eins og þau voru þarna í fyrravetur.

Bætt nýliðun orðin aðkallandi

En engu að síður er þetta eftirsóttur starfskraftur. Þau eru mjög hreyfanleg og það er mikið togað í þau, þannig að við megum alls ekki sofna á verðinum,“ segir Magnús.

Hann nefnir einnig að bætt nýliðun sé orðin afar aðkallandi. „Til þess að þekkingarfyrirtæki eins og spítalinn er geti dafnað og sinnt hlutverki sínu þurfum við að fá ferskt blóð inn, nýja sérfræðinga og öflugt fagfólk sem færir okkur eldmóð, nýjar hugmyndir og bætt vinnubrögð,“ segir Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á vísinda- og þróunarsviði Landspítala.

Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á vísinda- og þróunarsviði Landspítala.
Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á vísinda- og þróunarsviði Landspítala.
Þegar litið er til þess í hve miklum mæli vitnað …
Þegar litið er til þess í hve miklum mæli vitnað er í greinar sem koma frá vísindamönnum Landspítalans er staðan orðin heldur dökk.
Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert