Vont að berjast á tvennum vígstöðvum

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. mbl.is/Ragnar Axelsson

Það hefur lengi reynst erfitt að berjast á tvennum vígstöðvum,“ segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á vefnum Evrópuvaktinni í dag en tilefnið er að þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, um að draga til baka umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið verður ekki afgreidd fyrir þinglok samkvæmt samkomulagi stjórnarmeirihlutans og stjórnarandstöðunnar.

Styrmir segir að pólitísk áhrif málsins verði margvísleg. Reiði ríki vegna þess í röðum andstæðinga inngöngu í Evrópusambandið sem margir hverjir hafi verið eindregnir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. „Staða hennar er ekki svo sterk, að stjórnarflokkarnir megi við því að missa öfluga stuðningsmenn, og fari fram sem horfir þarf ríkisstjórnin enn frekar á þeim hópi að halda eftir sveitarstjórnarkosningar.“

Ennfremur vakni efasemdir um að ríkisstjórnin „hafi pólitískt þrek til að fylgja eftir stefnumálum sínum, sem er undarlegt í ljósi þess hve sterkur meirihluti hennar á Alþingi er, alla vega í þingmannafjölda“. Þá sé við því að búast að andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið endurskoði starfsemi sína „með það í huga að auka mjög þrýsting á stjórnarflokkana að þeir standi við gefin fyrirheit“.

Sú staða gæti orðið ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum erfið í ljósi þess að stjórnin virtist „eiga fullt í fangi með að fást við stjórnarandstöðuflokka sem biðu afhroð í þingkosningum fyrir ári“. Sakar hann ríkisstjórnina um uppgjöf og aumingjaskap í málinu.

„Ef sá skortur á sannfæringu sem virðist liggja að baki þessum aumingjaskap hefði ráðið ríkjum árið 1949, þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, árið 1951, þegar varnarsamningurinn var gerður, og í þorskastríðunum, hefði saga Íslands frá stofnun lýðveldis orðið önnur - ef á annað borð lýðveldi hefði yfirleitt verið stofnað,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert