92 af 100 launahæstu flugmenn

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. Ómar Óskarsson

„Á árinu 2013 störfuðu að meðaltali 1.503 starfsmenn hjá Icelandair ehf. í 1.381 stöðugildi. Af 100 launahæstu starfsmönnum félagsins voru 92 flugmenn,“ segir Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair Group, í bréfi til starfsmanna í tilefni af fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Eins og greint var frá á mbl.is kemur fram í fréttabréfinu að meðal­hækk­un stjórn­ar­for­manns og stjórn­ar­manna á undanförnum fjórum árum sé um 160% en for­stjóri og aðrir yf­ir­menn í sam­stæðunni hafi hækkað um 52% að meðaltali. Björgólfur segir þessar fullyrðingar rangar. „Grunnlaun stjórnenda hafa ekki hækkað umfram samningsbundnar launahækkanir á almennum markaði síðan ég tók við sem forstjóri félagsins.“

Björgólfur segir rétt að vekja athygli á því að stjórnendur afsöluðu sér samningsbundnum launahækkunum á árinu 2009 vegna bágrar fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Flugmenn félagsins hafi jafnframt verið beðnir um að leggjast á árarnar árið 2009 með launalækkunum, þegar félagið var í lífróðri, en því hafi þeir hafnað. „Launahækkanir stjórnenda eru þannig lægri en meðaltalslaunahækkanir flugmanna á sama tímabili.“

Heildarlaun flugmanna hækkað mun meira

Þá segir Björgólfur að í samtölum við forráðamenn FÍA vísi þeir iðulega til ríkulegra launahækkana sem hann, forstjóri Icelandair Group, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group og framkvæmdastjóri Icelandair hafi fengið á undanförnum árum. „Sannleikurinn er sá að frá árinu 2009, sem er fyrsta heila starfsár okkar allra í núverandi stöðum, hafa heildarlaun okkar hækkað um 21,2% á fjórum árum, undirritaður hefur hækkað um 12,4%, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group um 40,6% og framkvæmdastjóri Icelandair um 10,6%. Þetta er hækkun heildarlauna milli áranna 2009 og 2013 með hlunnindum og kaupaukum – þar sem allar greiðslur eru taldar.  Á sama tímabili hafa meðalheildarlaun flugmanna hækkað mun meira samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands.“

Einnig tekur hann fram að samkvæmt ársreikningum 2013 séu stjórnendur hjá Icelandair Group á lægri launum en stjórnendur skráðra fyrirtækja á Íslandi af sambærilegri stærð. „Sem forstjóri Icelandair Group óska ég þess formlega fyrir hönd allra hluthafa félagsins að þeir starfsmenn félagsins sem ræða málefni þess opinberlega geri það af heiðarleika og með hag Icelandair Group að leiðarljósi — enda á hagur Icelandair Group og starfsmanna þess að vera samofinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert