Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, telur mestar líkur á að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu verði áfram á ís, þar til hið pólitíska landslag breytist. Með því sé ESB-dyrunum haldið opnum.
Sem kunnugt er var ákveðið að efna ekki til sumarþings og verður þingsályktunartillaga um afturköllun umsóknarinnar því ekki tekin fyrir fyrr en í fyrsta lagi í haust.
Fundað var síðast um tillöguna í utanríkismálanefnd síðastliðinn föstudag.
Upplýsingar um ályktunina og feril hennar á Alþingi má finna hér.
Ekki sérstakur sigur ESB-sinna
- Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að setja Evrópumálin á ís. Hún ætlaði sér eftir þingsályktunina í ársbyrjun að ljúka Evrópumálinu. Nú er komin upp önnur stefna og hún er ótímabundin. Það veit enginn hvenær næsta skref verður stigið, ef það verður þá stigið. Líturðu á þá framvindu mála sem sigur fyrir ykkur sem hafið viljað halda Evrópumálinu áfram?
„Nei, ekki sérstakan sigur. Ég held að það hafi verið fullkomið glapræði að leggja fram þessa tillögu um slit á viðræðunum. Ég vona að sem flestir hafi áttað sig á því að það er víðtæk andstaða við það. Ég held að lærdómurinn sem við þurfum að draga af þessu sé sá að fólk í landinu, Íslendingar, vill sjá samninginn. Það er lærdómurinn sem má draga af þessu og kemur ekkert sértaklega á óvart. Ég held að það sé staðreyndin sem blasi við.“
Ríkisstjórnin fari sáttaleið
- Mun ríkisstjórnin, í ljósi þeirrar stöðu sem hún er komin í með þetta mál, afturkalla umsóknina?
„Það fyndist mér alveg gríðarlega óráðlegt, sérstaklega þegar aðrar leiðir bjóðast. Það eru til sáttaleiðir í þessu. Ríkisstjórnin orðar eina slíka í stjórnarsáttmálanum, að það sé einfaldlega gert hlé á þessum viðræðum.“
- Er það þá að þínu mati líklegasta lendingin, að það verði hlé á viðræðunum í einhver misseri þangað til staðan breytist, í hvora átt sem er?
„Já. Þá eru viðræðurnar ekki eyðilagðar og þá er sá ávinningur sem hefur hlotist af viðræðunum og allt þetta starf sem hefur farið fram í viðræðunum, ekki unnið fyrir gýg. Það er mjög mikilvægt. Þá er þessum dyrum haldið opnum og það held ég að sé eitthvað sem menn geta þá sætt sig við, á meðan pólitíska landslagið er svona, að það er ríkisstjórn í landinu sem vill ekki fara í viðræður við ESB,“ segir Guðmundur.