Felur í sér óásættanlega mismunun

Pétur H. Blöndal alþingismaður.
Pétur H. Blöndal alþingismaður. mbl.is/Ómar

„Hér er um miklar upphæðir að ræða af skatttekjum ríkissjóðs. Með hliðsjón af stöðu ríkissjóðs er ekki forsvaranlegt að afhenda þær einhverjum sem ekki þurfa á fénu að halda,“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í séráliti um frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Pétur bendir á að þótt talað sé um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána í heiti frumvarpsins sé hvergi í texta þess eða athugasemdum „bent á að eitthvað hafi verið rangt reiknað þegar kemur að verðtryggðum fasteignalánum eða að um einhverja skekkju sé að ræða. Aðgerðin sem frumvarpið felur í sér mun lækka höfuðstól tiltekinna verðtryggðra fasteignalána einstaklinga án þess að í því felist einhver leiðrétting.“

Ennfremur séu fyrirhugaðar aðgerðir í mörgum tilfellum óréttlátar og tekur Pétur tilbúin dæmi um hjón sem keypt hafi sambærilegar íbúðir annars vegar árið 1999 og hins vegar 2008. Fyrri hjónin hafi í raun hagnast vegna hækkandi fasteignaverðs þó að íbúðalán þeirra hafi einnig hækkað. Síðari hjónin hafi hins vegar tapað svo miklu að aðgerðirnar skipti þau ekki miklu. Bæði hjónin fái hins vegar skuldaniðurfellingar með aðgerðunum.

Pétur segir að með frumvarpinu sé „ekki gerð tilraun til að leiðrétta hlut mestu fórnarlamba fasteignabólunnar og úrræði frumvarpsins munu ekki breyta stöðu þeirra svo nokkru nemi.“ Þá mismuni það lántakendum í svipaðri stöðu sem hafi upplifað sömu breytingar á verðlagi og þeir sem tekið hafi fasteignalán. Þar beri hæst verðtryggð námslán. Ennfremur nái það ekki til lána vegna leiguíbúða í félagslegum íbúðafélögum.

„Þau lán voru einkum veitt til sveitarfélaga vegna leiguíbúða og til húsnæðissamvinnufélaga, svo og til leiguíbúða námsmanna og sjálfseignarstofnana fatlaðra. Leiguverð þessara íbúða ræðst að mestu leyti af afborgun lána, þ.e. greiðslu af höfuðstól og vöxtum, sem frumvarpið nær ekki til. Slík mismunun er óásættanleg.“

Minnihlutaálit Péturs H. Blöndals

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert