Staðan vegna verkfallsaðgerða flugmanna hjá Icelandair var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.
Ráðherrann hefur ekki útilokað að sett verði lög á aðgerðirnar ef nauðsynlegt verði að grípa til þess ráðs vegna almannahagsmuna. Engin ákvörðun hefur þó enn verið tekin um slíkt samkvæmt upplýsingum mbl.is og er lögð áhersla á að fylgjast með þróun mála á meðan viðræður eru í gangi á milli deiluaðila. Deiluaðilar funduðu í gær og verður áfram fundað í dag.
Verkfallsaðgerðirnar hafa þegar haft áhrif á ferðalög mikils fjölda fólks til og frá landinu og haft í för með sér mikil áhrif á bókanir hjá hótelum, bílaleigum og öðrum sem tengjast ferðaþjónustunni.