Kvarta sáran yfir röskun á flugi

Beðið við skrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Beðið við skrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Gríðarlegt álag hefur verið á starfsfólki Icelandair á flugvöllum og í þjónustuveri undanfarna daga. Á facebooksíðu Icelandair sést að ýmsir eru afar ósáttir við þá röskun sem hefur orðið á flugi félagsins undanfarna daga og hafa lítinn áhuga á að koma aftur til Íslands.

Greinilegt er að það er mikið álag á símakerfinu hjá Icelandair því fjölmargir nefna það í skilaboðum á Facebook að ekki sé mögulegt að ná í gegn.

Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, hefur álagið verið gríðarlegt undanfarna daga og á það bæði við um þjónustuver í síma sem og afgreiðslu á flugvöllum. 

Þegar hefur þurft að aflýsa yfir 50 flugferðum en næsta verkfall flugmanna Icelandair verður á föstudag ef ekki verður samið fyrir þann tíma. 

Samningafundur stóð yfir fram yfir ellefu í gærkvöldi og hófst á ný klukkan ellefu í morgun. Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir að fátt sé hægt að segja um stöðuna í viðræðunum á þessu stigi en flugmenn séu allir af vilja gerðir til að semja. 

Hver borgar brúsann?

Þeir sem skrifa skilaboð á facebooksíðu Icelandair kvarta mest yfir skorti á upplýsingum en eins er fólk ósátt við þann aukakostnað sem þetta hefur haft í för með sér fyrir fólk.

Að sögn Guðjóns verður hvert tilvik metið sérstaklega en í mörgum tilvikum hefur fólk kvartað yfir að þurfa að greiða fyrir nýja flugmiða, hótelgistingu o.fl.

Einn talar um að það sé viss áskorun þegar kemur að þolinmæði ef þú ætlir að ferðast með Icalandair. Sá sami kvartar undan miklum veikindum meðal flugmanna en hann hafi átt pantað flug hinn 11. maí. Þar sem sex flugmenn hafi hringt sig veika inn með stuttum fyrirvara hafi þurft að aflýsa fluginu sem þau áttu bókað. Þau hafi beðið klukkutímum saman á flugvellinum eftir því að fá aðstoð við að fá annað flug í staðinn. Þá hafi komið í ljós að Icelandair hafði séð um að bóka þau hjá öðru flugfélagi en það hafi lent á þeim að borga þá miða úr eigin vasa. Heill dagur hafi farið í endalaust vesen.

Annar talar um að hafa orðið strandaglópur á Íslandi í rúman sólarhring og því hafi þau misst af tengiflugi. Það hafi síðan kostað þau þúsundir Bandaríkjadala að bóka nýtt tengiflug. Þegar þau hafi loks komist frá Íslandi hafi flugmennirnir tafið flugið um meira en klukkustund. „Ég er pirraður og mun aldrei fljúga með Icelandair aftur. Græðgi flugmannanna ykkar hefur haft gríðarleg áhrif á líf okkar ...“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert