Landsnet hefur sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Reykjanesbæjar og Voga vegna Suðurnesjalínu 2. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist um mitt þetta ár og þeim ljúki í árslok 2015, fyrir utan frágangsvinnu sem verði lokið um mitt ár 2016.
Þetta kemur fram á vefsvæði Landsnets. Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í þessum mánuði telur Landsnet að þörf sé á annarri tengingu fyrir Suðurnesin óháð sérstökum áformum um atvinnuuppbyggingu og því hafi verið ákveðið að ráðast í byggingu Suðurnesjalínu 2.
„Orkustofnun hefur veitt Landsneti leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, 220 kílóvolta (kV) háspennulínu frá Hamranesi í Hafnarfirði að Rauðamel norðan Svartsengis. Telur Landsnet nauðsynlegt að hefja framkvæmdina sem fyrst þar sem þörfin á Suðurnesjalínu 2 sé aðkallandi og er óskað eftir því að sveitarfélögin fjögur veiti umbeðið framkvæmdaleyfi, í samræmi við gildandi aðalskipulag, við fyrsta tækifæri,“ segir í frétt á vef Landsnets.
Sjá nánar á www.sudvesturlinur.is