Fjöldi eyðibýla í eign ríkisins er um 160. Þær eyðijarðir eru oft nytjaðar af bændum í nágrenninu til beitar eða slægna.
Fjöldi ábúðarsamninga á vegum Jarðeigna ríkisins hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu var um síðustu áramót 139 og aðrir leigusamningar voru 448, í gildi eru því 587 samningar, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.
Formlegt forræði jarða Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla fellur undir eignasafn Jarðeigna ríkisins. Á þetta t.d. við um stóran hluta fyrrnefndra 160 eyðibýla. Utan við þessar tölur eru jarðir og eyðijarðir sem falla undir forræði annarra ráðuneyta eða undirstofnana, segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn um fjölda ríkisjarða.