Stærstur hluti starfsmanna Samkeppniseftirlitsins fór ásamt mökum á ráðstefnu í Marokkó. Forstjóri segir að tilgangur ferðarinnar hafi verið að auka þekkingu starfsmanna samhliða því að bæta liðsheild þeirra.
Ráðstefnan var á vegum International Competition Network í Marokkó 24.-26. apríl. ICN eru alþjóðleg samtök samkeppnisyfirvalda. Fram kemur í minnisblaði frá eftirlitinu að 2,5 milljónir króna hafi verið lagðar í ferðina af fjármunum sem það hefur áætlað til símenntunar og erlends samstarfs á rekstraráætlun 2014. Þá lagði starfsmannafélagið til 1,3 milljónir króna til ferðarinnar.
Fram kemur í minnisblaðinu að ferðakostnaður hafi ekki verið greiddur fyrir maka. Aðspurður segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri eftirlitsins, að ferðin hafi verið farin í því skyni að efla liðsheild og auka þekkingu starfsmanna og ekki hafi verið um árshátíðarferð að ræða. „Við ráðstöfuðum fjármunum í þetta sem árlega fara í símenntun og til erlends samstarfs. Þá notaði starfsmannafélagið styrk sem starfsmenn leggja til, auk styrks sem Samkeppniseftirlitið veitir starfsmannafélaginu árlega til liðsheildarmála eins og árshátíð er dæmi um,“ segir Páll.