„Mikilvægasta og brýnasta hagsmunamáli Íslendinga, því að brjótast út úr gjaldeyrishöftunum, miðar ekkert þrátt fyrir býsna stórkarlalegar yfirlýsingar forsætisráðherra í þeim efnum í aðdraganda kosninga,“ sagði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag. Lagði hann til að ríkisstjórnin óskaði eftir aðstoð erlendra sérfræðinga í þeim efnum.
„Ég tel orðið einsýnt að ríkisstjórnina skorti aðstoð í þessu efni og að mikilvægt sé að við fáum í þetta flókna og mikla hagsmunamál okkar Íslendinga erlenda sérfræðinga okkur til halds og trausts og sameinumst um það, stjórnmálaflokkarnir hér á Alþingi, að finna slíka erlenda sérfræðinga sem allir stjórnmálaflokkar, stjórn og stjórnarandstaða, geta treyst og sem full samstaða er um,“ sagði hann.
Mikilvægt væri að stjórn og stjórnarandstaða stæðu saman að lausn málsins. „En til þess þarf ríkisstjórnin að hafa forustu um samtal. Ríkisstjórninni hefur á þessu fyrsta ári ekki tekist að ræða við stjórnarandstöðuna hér í þinginu og ná samstöðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um heildstæða áætlun um það hvernig við ætlum að brjótast út úr þessu.“