Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, nýtti sér ræðutímann við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld til að kynna fyrir hvað flokkur hans stendur. „Við stofnuðum flokk sem tekur ekki þátt í gömlum deilum af því bara. Við viljum berjast gegn gömlum hefðum og við erum óbundin af rótgrónum hagsmunum.“
Hann sagðist oft lesa stöður um Bjarta framtíð á samfélagsvefnum Facebook. Stöður á borð við þær að spurt er hvað flokkurinn vilji upp á dekk og hvers vegna þingmenn hans starfi ekki bara í gömlu flokkunum. „Mér finnst það alltaf mjög fyndið. Mér finnst gaman að lesa pirringinn yfir því að Björt framtíð sé til og að hún sé að festast í sessi.“
Guðmundur sagði að Björt framtíð væri mótvægi við gömlu flokkana. „Í gömlu flokkunum er fullt af góðu fólki, en menningin er gömul og uppfull af ósiðum. Það þarf að berjast gegn þeim. [...] Við stofnuðum flokk eins og við viljum hafa hann.“
Hann segir meðlimi Bjartrar framtíðar trúa því að það sé til skynsamleg niðurstaða í öllum málum. Og að best sé að ná henni með samtali milli ólíks fólks. sem leggi ólíkar skoðanir í púkkið.
Þá vísaði hann til þess hvernig Besti flokkurinn starfaði í borgarstjórn, þar sem áður var úrelt menning pólitíkur. „Það þurfti að koma inn með ferska nálgun, nýtt samtal.“