Börn stökkva fram af Gullinbrú

Áskorun um að hoppa í sjóinn er nú í gangi …
Áskorun um að hoppa í sjóinn er nú í gangi í mörgum grunnskólum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Kristín Ágústsdóttir

Vinsælt er meðal grunnskólabarna að stökkva fram af Gullinbrú í Grafarvogi á sumrin. Að sögn lögreglu er þetta eitthvað sem alltaf hefur viðgengist og lítið er hægt að gera í málinu. Á vefsíðunni youtube má meðal annars finna nokkur myndbönd af krökkum að hoppa fram af brúnni.

Að sögn nemanda í 10. bekk í Grafarvogi er einskonar keðjuáskorun á samskiptasíðunni Facebook í gangi, þ.e. ef þú stekkur máttu skora á einhvern annan til að gera slíkt hið sama. Hún segir flesta stökkva af litlum klettum í kringum brúna en aðra stökkva fram af brúnni sjálfri. Þá er vinsælt að taka athæfið upp á snjallsímaforritið Snapchat og senda öðrum áskorun með þeim hætti.

Varasamt getur verið að stökkva niður af brúnni þar sem straumurinn getur verið mikill og botninn grýttur, þó hættan sé minni í flóði með hækkuðu vatnsborði. Þá eru alltaf aðrar hættur til staðar, líkt og almennt fylgir sjósundi, en ungmennin eiga meðal annars á hættu að fá krampa í ísköldum sjónum. Þá er einnig hætta á ofkælingu auk þess sem líkur á drukknun eru almennt taldar aukast þegar synt er í köldum sjó.

Að sögn lögreglu er lítið hægt að gera í málinu, en krakkarnir virðast hópast við brúna á hverju ári þegar hlýna tekur. Rætt er þó við krakkana þegar lögregla verður vör við athæfið og leysist hópurinn þá iðulega upp í kjölfarið.

Greint var frá því í gær að skólastjóri Hagaskóla sendi foreldrum barna í skólanum tölvupóst og greindi þeim frá viðlíka áskorunum sem þar ganga. Hafa nem­end­urn­ir meðal ann­ars verið að stökkva út í Reykja­vík­ur­höfn, smá­báta­höfn­ina við Bakka­vör og í sjó­inn við Sjá­lands­hverfið í Garðabæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert