Íslenskur sálfræðingur ræddi við dætur Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur í febrúar síðastliðnum. Niðurstöður hans voru að faðir þeirra, Kim Gram Laursen, hefði beitt þær andlegu-, líkamlegu- og kynferðisofbeldi. Niðurstöðurnar voru kynntar dönskum dómstólum en þær ekki teknar til greina.
Þetta segir Thomas Berg, lögmaður Hjördísar Svan. Eins og fram kom á mbl.is í gær var Hjördís dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir að brot á umgengnisrétti yfir dætrum sínum þremur og ólöglegt brottnám þeirra frá Danmörku til Íslands. Um þrjú brot var að ræða og segir Thomas að það hafi leitt til þyngingar refsingarinnar. „En foreldrar sem nema börn sín á brott og fara með til Íran eða Írak fá mun þyngri dóma, þannig að í því ljósi var refsingin ekki harkaleg.“
Kim Laursen og Hjördís hafa átt í áralangri forræðisdeilu vegna þriggja dætra þeirra sem Kim var dæmt fullt forræði yfir árið 2012. Hjördís hefur ávallt haldið því fram að hún hafi verið að bjarga dætrum sínum úr klóm föður þeirra sem beitt hafi þær - og sig - ofbeldi. Thomas segir að þessar röksemdir hefðu verið kynntar fyrir dómstólnum í Horsens en á þær hafi ekki verið hlustað.
Thomas segir að hann hafi leitt tvö vitni fyrir dóminn; leikskólakennara og konu sem hafi verið ein með stúlkunum. „Leikskólakennaranum var mikið niðri fyrir og hún hrygg þegar eftir að dómurinn var kveðinn upp. Hún var 200% viss um að börnin hefðu orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu föður síns. Ein dætra Hjördísar hafði lýst þeim brotum fyrir henni í fjórgang.“
Á móti var vitnisburður frá dönskum sálfræðingi sem sagðist ekki geta sagt með vissu að brotið hefði verið gegn börnunum, gegn eindreginni neitun Kim. Sá sagði einnig að Kim væri hæfur til að sinna börnunum, reyndar eins og Hjördís. Thomas gagnrýnir framburð sálfræðingsins harðlega.
Thomas segist gert þá kröfu að danskir sérfræðingar eða lögreglumenn færu til Íslands og tækju skýrslu af stúlkunum þremur. Þeirri kröfu var hafnað þannig að Thomas leitaði sjálfur eftir sérfræðingi á Íslandi sem tók klukkustunda langt viðtal við allar stúlkurnar. „Niðurstaða sálfræðingsins var sú að enginn vafi léki á því að stúlkurnar hefðu orðið fyrir andlegu, líkamlegu, og kynferðisofbeldi. Engin spurning, engin vafi.“
Skýrsla sálfræðingsins íslenska var þýdd yfir á dönsku og hún lögð fram í málinu sem rekið var fyrir dómstólnum í Horsens. „En vegna þess að beiðnin til sálfræðingsins kom ekki frá dönskum yfirvöldum, eða dómnum, þá var ekki tekið mark á niðurstöðum skýrslunnar. En hvernig á ég að geta sýnt fram á þessar niðurstöður ef kröfum um að tekin sé skýrsla af stúlkunum er sífellt hafnað? Það hlustar enginn á stúlkurnar.“
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað en Thomas á frekar von á því að hann verði látinn standa. „Ef við áfrýjum ekki þá getum við fengið Hjördísi senda til Íslands frekar fljótlega, teljum við, þar sem hún getur afplánað dóm sinn en um leið barist fyrir stúlkunum í íslenskum rétti. Þar er þá hægt að vitna um það hvað faðir stúlknanna hefur gert þeim. Við höfum sent lögmönnum Hjördísar á Íslandi vitnisburð þeirra tveggja vitna sem við leiddum fyrir í Horsens, en þau báru um að stúlkurnar hefðu sagt þeim að faðir þeirra hefði brotið gegn þeim kynferðislega. Það er vitnisburðurinn sem dómaranum var alveg sama um.“
Stúlkurnar þrjár eru hjá fjölskyldu sinni á Íslandi og óvíst er enn um afdrif þeirra. Thomas segir merkilegt til þess að líta, að í öll skiptin sem Hjördís fór með börnin til Íslands þá reyndi Kim ekki einu sinni að hafa samband við þau. „Hann var spurður um þetta fyrir réttinum og hann staðfesti að hafa aldrei reynt að hafa samband. Honum er alveg sama um stelpurnar, hann vill bara klekkja á móður þeirra fyrir að yfirgefa hann.“
Hann segir að Kim hafi einnig beðið með að reyna fá þær aftur til Danmerkur í sex eða sjö mánuði vegna þess að hann vissi að það væri auðveldara með Hjördísi á bak við lás og slá. Undarlegt þykir honum að Kim hafi ekki farið fram á það við dönsk yfirvöld að þau hlutuðust til um málið heldur réð lögmann á Íslandi. Það sé ekki hefðbundin leið til að sækja börn sem hafi verið numin á brott.
Thomas neitar því ekki að málið verði mun erfiðara fyrir Hjördísi ef stúlkurnar fara aftur til föður síns í Danmörku. Hann vonast því til að Hjördís verði send sem fyrst til Íslands til afplánunar þar sem hún geti einnig barist fyrir dætrum sínum, á sanngjarnan hátt. „Það versta sem þú gerir í Danmörku er að taka barn frá dönskum ríkisborgara. Það er hreinlega það versta sem þú getur gert.“