Flutti þingheimi ljóð um Dallas

Óttarr Proppé á Alþingi.
Óttarr Proppé á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttarr Proppé þingmaður Bjartrar framtíðar flutti þingheimi kærar Pollakveðjur í eldhúsdagsumræðum í kvöld, og þakkaði fyrir stuðninginn í Eurovision. Að því loknu fór hann með frumsamið ljóð um sápuóperuna Dallas, sem hann sagði minna um margt á Alþingi.

Forseti Alþingis óskaði sem kunnugt er Pollapönkurum til hamingju með árangurinn í Eurovision í síðustu viku og tiltók sérstaklega að Alþingi væri stolt af framlagi Óttars. 

Verkefni stjórnmála að auka hamingju

Í eldhúsdagsumræðum sagði Óttarr þetta hafa glatt pollana og færði hann forseta og þingheimi öllum „kærar pollakveðjur til baka með hvatningu um að hvika hvergi frá baráttunni gegn alls konar fordómum“.

Óttarr sagði fordóma nefnilega ekki bara eitthvað sem búi í öðru fólki, öðrum flokkum eða öðrum löndum, heldu glímum við öll við einhverja fordóma sem við þurfum að berjast við. „Fordómar leiða af sér mismunun og vond samskipti. Það er slæmt. Ef við getum nálgast mál fordómalaust með opnum hug er líklegra að sem flestir verði glaðir, og það er gott.“

Hann lýsti þeirri skoðun sinni að helsta verkefni í stjórnmálum og í lífinu almennt væri að gera sitt besta til að auka hamingju í heiminum og koma í veg fyrir óhamingju. Hann  benti jafnframt á að peningar og hamingja væru ekki endilega það sama, og rifjaði í því samhengi upp bandarísku sápuóperuna Dallas.

Dallalas, la Dallalallalas

Óttarr heimsótti eitt sinn á Southfork búgarðinn í Texas, þar sem Ewing fjölskyldan bjó í þáttunum. Upplifunin af því óraunverulega umhverfi var skrýtin, sagði Óttarr, en þegar hann steig í fyrsta sinn í sali Alþingis sem þingmaður hafi tilfinningin verið svipuð.

„Ég vil meina að við þingmenn getum dregið ákveðinn lærdóm af J.R. Ewing og samferðarfólki hans í Dallas,“ sagði Óttarr. Sviksemi, sjálfhverfa og leynimakk væru engum til góðs, og einstrengingsháttur og hroki komi sjaldnast neinu í verk en leiði á endanum til hörmunga og óhamingju fyrir alla.

Óttarr sagði að á þinginu í vetur hefðu þingmenn upplifað hvort tveggja, bæð gott og slæmt, vel heppnaða samvinnu en líka átök og leiðindi. „Það kemur fyrir að titillagið úr Dallas komi í huga minn hér í þingsal,“ sagði þingmaðurinn.

Í kjölfarið flutti hann lítið ljóð sem hann sagðist hafa samið með Sigurjóni Kjartanssyni um svipað leyti og Dallas þættirnir höfðu hvað mest áhrif á Íslendinga. Ljóðið er samið við titillag þáttanna, en þar sem ekki er til siðs að syngja úr ræðustól Alþingis flutti hann það á hefðbundinn hátt í trausti þess að lagið væri þingmönnum í fersku minni.

Ljóðið er svo hljóðandi:

Dallalas, la Dallalallalas
er falleg borg í Texas.
Bítast fagrar konur um mikinn auð
innan um mislitan sauð.
Ewing fjölskyldan samheldin er
þá vandamál steðja að.
J.R. glúrinn en Bobby ber
og miss Ellie æði er.
Dallalas, la Dallalallalas.

„Þetta ljóð minnir mig alltaf á hvað þarf til að gera gagn hér á þingi, eins furðulegt og það hljómar,“ sagði Óttarr. „Samheldni, hæfilega glúrinn vinnubrögð og dass af áræðni. Ég vona að það komi öðrum að gagni líka.“

Óttarr bætti við að stjórnmálin væru ekki eingöngu inni í sal Alþingis, heldur komi þau við líf allra Íslendinga. „Það er mikilvægt fyrir þingmenn að muna að okkar umræða fer ekki bara fram okkar á milli. Ég hvet þingmenn til að horfa út fyrir húsið, tala til og hlusta á þjóðina. Það eru raunveruleg stjórnmál, ekki eingöngu persónulegt karp okkar á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert