Íslendingadagshátíðin á Gimli í Manitoba í Kanada verður haldin í 125. sinn í sumar. Eins og undanfarin nær 30 ár verður Kristjan Stefanson, hæstaréttadómari í Winnipeg, í hlutverki gestgjafa heiðursgesta frá Íslandi, en hann fagnar einmitt 70 ára afmæli í dag.
Kris, eins og hann er gjarnan kallaður, hefur tekið sérstöku ástfóstri við Ísland og Íslendinga og unnið manna mest ásamt bróður sínum Eric, fyrrverandi ráðherra í Manitoba og áður varaborgarstjóra Winnipeg, að auknum tengslum Manitoba og Íslands frá 1984 eða í 30 ár.
„Aðkoma mín að Íslendingadeginum hefur breyst mikið síðan við Morris Eyjolfson tókum fjölmiðlana og helstu skemmtikraftana að okkur,“ segir Kris. Hann leggur áherslu á að á þessum árum, fyrir um 30 árum, hafi ríkt mikil samkeppni á milli hátíða fyrstu helgina í ágúst og því hafi skipt miklu máli að vera í góðu sambandi við þá sem drógu vagninn og fjölmiðla.
„Hlutverk okkar tók nýja stefnu 1989 þegar Davíð Oddsson kom í opinbera heimsókn sem borgarstjóri og Vigdís Finnbogadóttir sem forseti,“ heldur Kris áfram. „Þá einbeittum við okkur að íslensku gestunum til að tryggja að þá vanhagaði ekki um neitt og heimsóknin yrði sem best og þannig hefur það verið síðan.“
Skömmu síðar féll Morris Eyjolfson frá en Kris hélt uppteknum hætti. Um árabil naut hann aðstoðar Neils Bardals útfararstjóra, sem andaðist 2010, en hann útvegaði bíla og sá um akstur gestanna. „Það er með ólíkindum hvað ég hef hitt marga Íslendinga vegna þessa starfs og með mörgum okkar hefur tekist góður vinskapur,“ segir Kris. „Ég þekki alla forsætisráðherra Íslands á þessu tímabili, forseta, marga borgarstjóra, alþingismenn, embættismenn, viðskiptamenn og fleiri. Ég hef aldrei dregið menn í dilka eftir stjórnmálaflokkum heldur komið eins fram við alla, verið trúr og tryggur. Vegna þessarar einlægni, sem er mér eðlislæg, hefur ríkt trúnaður á milli mín og allra gestanna og fyrir vikið hefur alltaf verið þægilegt andrúmsloft hjá okkur. Gestirnir hafa sagt það sem þeim hefur legið á hjarta og ég hef ýtt við þeim til að dagskráin riðlist ekki. Ég hef gefið allt sem ég hef getað af mér en í raun er það ég sem hef fengið mest út úr þessum samskiptum. Ég fór fyrst til Íslands 1984 og sú staðreynd að ég hef kynnst svo mörgum Íslendingum er fyrst og fremst Íslendingadagshátíðinni að þakka. Þessi kynni hafa breytt lífi mínu, auðgað það og bætt.“
Winnipeg og Reykjavík eru systraborgir og þegar haldið var upp á 200 ára kaupstaðarafmæli Reykjavíkur 1986 tók Eric Stefanson, varaborgarstjóri Winnipeg, þátt í hátíðarhöldunum sem slíkur. „Ég fylgdi með, fór með í allar móttökur og kynntist fjölda manns. Þessi heimsókn var í raun byrjunin á ævintýrinu sem ekki sér fyrir endann á,“ segir Kris. „Síðan höfum við Eric komið til Íslands nær árlega og stundum tvisvar á ári, styrkt tengslin og spáð í framtíðina.“
Kris segir ómetanlegt að hafa fengið tækifæri til þess að kynnast landi og þjóð eins vel og hann hefur gert. „Við Eric höfum farið um allt land og ég er sannfærður um að við höfum heimsótt fleiri staði á Íslandi en margir íbúar landsins. Við höfum farið á snjósleðum um jökla á hálendinu, spilað golf víða, heimsótt býli forfeðra okkar fyrir norðan og austan og svo má lengi telja. Þetta hefur verið ótrúleg yfirferð og ég get með sanni sagt að ég elska land forfeðra okkar.“
Kris á vart til orð til þess að lýsa náttúrufegurðinni á Íslandi og þeim áhrifum sem hún hefur haft á hann. „Þessi fegurð skiptir mig miklu máli og hefur haft mikil áhrif á mig,“ segir hann. „Sérstaklega hefur verið tilfinningaþrungið að vera á Þingvöllum. Það minnir mig alltaf á forfeðurna, sem fluttu til Kanada, og minnir mig líka á að ég er 100% Íslendingur. Eina saga mín til þess tíma er saga Íslands. Íslendingar líta gjarnan á okkur sem Vestur-Íslendinga, öðruvísi fólk, en eini munurinn á okkur og ykkur er að við búum ekki í sama landi. Íslendingar eru einstakir og ég hefði ekki komið til Íslands um 50 sinnum ef þar væri ekki að finna þetta góða fólk sem þar býr. Vinskapurinn dregur mig stöðugt til baka. Davíð Oddsson og Ástríður eiga sérstakan stað í hjarta mínu enda má segja að samskiptin hafi hafist með þeim. Þessi góði vinskapur hefur samt ekki skyggt á tengsl við aðra og nú er svo komið að við náum aldrei að hitta alla sem við viljum í hverri heimsókn.“
Íslendingadagurinn hefur skipað ríkan sess í lífi Kris og fjölskyldu hans. Eric, faðir hans, var til dæmis formaður Íslendingadagsnefndar í tvígang, samtals í fjögur ár, sem er mjög óvenjulegt. Dennis, bróðir hans, var líka formaður.
„Íslendingadagurinn hefur verið hluti af lífi mínu eins lengi og ég man eftir,“ segir Kris. „Fjölskyldan hefur alla tíð lagt sitt af mörkum til hátíðarinnar og þegar við bjuggum á Gimli kom stórfjölskyldan alltaf saman í tengslum við hátíðina. Þegar pabbi var þingmaður í Ottawa fengum við líka gesti á öðrum tíma á sumrin. Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, kom til Gimli á sjöunda áratugnum sem og Ásgeir Ásgeirsson, þáverandi forseti. Ég var því ekki hár í loftinu þegar ég kynntist fyrst áhrifamönnum á Íslandi. Ég var upp með mér að hitta svo merkilega menn og man hvað mér þótti þeir almennilegir og góðir.“
Kris segir að undanfarin ár hafi orðið töluverð breyting á dagskrá Íslendingadagsins til hins betra. „Eftir að skrifstofa íslensks aðalræðismanns var opnuð í Winnipeg hafa samskiptin við Ísland aukist til muna. Atli Ásmundsson hefur verið lengst í starfinu og kom ótrúlegustu hlutum til leiðar og Hjálmar W. Hannesson hefur fylgt góðum störfum hans eftir. Aðalræðismennirnir hafa verið Íslendingadagsnefnd innan handar og íslenskir kórar hafa í auknum mæli sett sinn svip á hátíðina og gert hana líflegri.
Icelandair á stóran þátt í þessari jákvæðu breytingu. Þegar ég flaug fyrst til Íslands var þægilegast að fljúga fyrst til Minneapolis og þaðan til New York til að ná flugi til Íslands. Samskiptin við Vestur-Kanada efldust mikið þegar Icelandair byrjaði að fljúga til Minneapolis. Enn varð mikil breyting, þegar Icelandair hóf flug til Toronto og nú hafa Edmonton og Vancouver bæst við. Þetta beina flug til vesturhluta Kanada auðveldar okkur Kanadamönnum á svæðinu af íslenskum ættum að heimsækja Ísland og gefur auk þess fleiri Íslendingum tækifæri til að heimsækja okkur. Eric, bróðir minn, hefur unnið mikið með stjórnvöldum að þessum bættu samgöngum og stjórnendur Icelandair eru góðir vinir okkar og hafa verið það lengi. Þessi vinskapur nær aftur til fyrstu ferðar minnar til Íslands. Þegar við Morris Eyjolfson fórum saman til Íslands var tekin mynd af mér með flugmönnum Icelandair í flugstjórnarklefanum og síðar birtist hún í Lögbergi-Heimskringlu. Í myndatexta stóð efnislega að myndin sýndi mig með vinum mínum frá Icelandair. Fyrirtækið hefur gert frábæra hluti og í mínum huga er Icelandair besta flugfélag í heimi. Íslendingar eru heppnir að eiga svona gott flugfélag.“
Íslendingadagurinn verður haldinn í 125. sinn í sumar. „Þetta er merkilegur áfangi, ekki síst þegar hátíðin er sett í samhengi við sögu Kanada,“ segir Kris. „Það eru ekki mörg þjóðarbrot sem hafa haldið svona hátíð í 125 ár. Þessi hátíð skiptir okkur miklu máli. Við höfum minnst lands forfeðra okkar í 125 ár og því er þetta mjög mikilvæg stund fyrir okkur.“
Í febrúar sem leið heiðraði stjórn Íslendingadagsnefndar Kris sérstaklega fyrir óeigingjarnt starf í þágu nefndarinnar í tengslum við samskiptin við Ísland. Þetta var í fyrsta sinn sem nefndin valdi mikilvægasta manninn vegna þessa samstarfs og við það tækifæri sagði Tim Arnason, fyrrverandi forseti Íslendingadagsnefndar, að Kris hefði einfaldlega staðið sig best í þessu efni. „Enginn gerir það betur en Kris,“ sagði hann.