„Er það alltaf réttlæti sem ræður för hér á Alþingi?“ Þetta var spurning sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, varpaði fram í ræðu sinni við eldhúsdagsumræðu á Alþingi í kvöld.„Að þessu hljótum við að spyrja okkur þegar við tökum ákvarðanir ríkisstjórnarinnar þennan fyrsta vetur til skoðunar.“
Katrín spurði hvort það hafi verið réttlætið sem réði för þegar ákveðið var að lækka veiðigjöld á útgerðina um átta og hálfan milljarð á ársgrundvelli, hvor það hafi verið réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að lækka gjöld á áfengi og tóbak en hækka komugjöld á heilsugæslu og hvort það hafi verið réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að hækka álögur á námsmenn í háskólum.
Einnig spurði hún hvort réttlæti ráði för þegar Íslendingar taki á móti hælisleitendum og innflytjendum og sendi suma til baka og stígi þar jafnvel í sundur fjölskyldum.
Hún sagði ljóst að ríkisstjórnin hafi ekki staðist réttlætisprófið.
Katrín spurði einnig hvort það væri réttlát hugmyndafræði sem búi að baki skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar, sem hún sagði leifar af því heimsmetsloforði sem Framsóknarflokkurinn var kjörinn út á fyrir rúmu ári. „Er það réttlátt að í svokallaðri „almennri aðgerð“ fyrir heimilin í landinu sé þriðjungur heimila; þ.e. fjölskyldur á leigumarkaði; fólkið sem aldrei hefur verið haft með þegar talað er um „heimilin“, undanskilinn?“
Hún sagði ranglátt ef aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu eða menntun ræðst af efnahag svo dæmi sé tekið. „Þar af leiðir að jöfnuður, efnahagslegur og samfélagslegur, hlýtur að vera eitt einkenni réttláts samfélags.“
Að lokum sagði Katrín að í allri stjórnmálaumræðu sé mikilvægt að réttlætissjónarmið séu höfð að leiðarljósi; að kjörnir fulltrúar geti tekið sem bestar og réttlátastar ákvarðanir í þágu allra landsmanna. „Margir telja að nýir tímar kalli á ný pólitísk hugtök; orðin hægri og vinstri séu orðin merkingarlaus í hugum almennings sem sé þreyttur á svokölluðum hefðbundnum stjórnmálum. Miðað við áskoranir nýrrar aldar tel ég að réttlæti, jöfnuður og sjálfbærni hafi aldrei verið mikilvægari markmið; einmitt til að tryggja samfélag fyrir alla; og það tel ég vera hlutverk og skyldu okkar vinstrimanna í samtímanum. Í mínum huga er réttlæti ekki pólitísk klisja sem dó á síðustu öld.“